„Þó maður hafi nú einsett sér fyrir tíu árum að sveiflast ekki eftir skoðanakönnunum þá verð ég að viðurkenna að þetta er samt auðvitað mjög ánægjulegt og við erum þakklát fyrir þennan stuðning. En eðli kannanna er auðvitað það að þær sveiflast og við höldum vitanlega bara okkar striki og höldum áfram að berjast fyrir þeim málum sem við höfum sannfæringu fyrir,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar MMR sem sýnir flokkinn með 14,4% fylgi.
Miðflokkurinn hefur ekki mælst með jafn mikið fylgi áður í skoðanakönnunum MMR en fylgið eykst um 3,8% frá því fyrir mánuði. Á sama tíma tapar Sjálfstæðisflokkurinn verulegu fylgi eða 3,1% og mælist nú með 19% og hefur flokkurinn ekki mælst með lægra fylgi áður í könnunum fyrirtækisins. Líklegasta skýringin á fylgislækkun Sjálfstæðisflokksins og fylgisaukningu Miðflokksins er umræðan um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem stjórnvöld vilja samþykkja en Miðflokkurinn hefur lagst gegn.
„Viðhorfið til skoðanakannana á að mínu mati að vera það að þær gefi vísbendingar á ákveðnum tímapunkti en maður megi ekki fara að elta þá þróun heldur hafa trú á því að það að fylgja stefnu sem maður hefur sannfæringu fyrir skili árangri á endanum,“ segir Sigmundur. Skoðanakannanir eigi þannig ekki að stjórna stjórnmálaflokkum en hins vegar sé heldur ekki rétt að loka augunum fyrir þeim. Þetta séu ákveðnar upplýsingar eins og margt annað sem rétt sé að taka inn í dæmið, en upp að eðlilegu marki.
„Þetta er mjög stór sveifla og ég get ekki neitað því að ég hafi haft það á tilfinningunni að stuðningur við okkur væri að aukast. En við munum hins vegar ekki láta þessa skoðanakönnun, frekar en kannanir sem verið hafa okkur síður hagstæðar, slá okkur út af laginu hvað stefnuna varðar. Við fylgjum bara okkar stefnu og því sem við höfum trú á og vonumst til þess að við náum að sannfæra sem flesta um það til lengri tíma litið.“