Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), kom af fjöllum þegar Morgunblaðið spurði hana hvort það setti ekki þrýsting á SÍS að Reykjavíkurborg hefði ákveðið að greiða öllum starfsmönnum sínum 105 þúsund króna eingreiðslu 1. ágúst, vegna tafa á viðræðum um nýja kjarasamninga.
Fram hefur komið að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bannað sveitarfélögum að greiða umrædda eingreiðslu til starfsmanna sinna sem eru í stéttarfélögum sem vísað hafa kjaradeilum sínum til ríkissáttasemjara.
Aldís var spurð hvort það setti ekki aukinn þrýsting á Samband íslenskra sveitarfélaga að allir fengju eingreiðsluna, eftir að þessi stóri vinnuveitandi, Reykjavíkurborg, hefði ákveðið að allir borgarstarfsmenn fengju greiðsluna.
„Þetta kemur mér á óvart. Á þessari stundu hef ég ekkert um þetta að segja annað en að þú ert að segja mér fréttir, að Reykjavíkurborg hafi ákveðið þetta. Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þurfum að skoða þessa ákvörðun borgarinnar áður en við tjáum okkur um hana,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, sem er bæjarstjóri í Hveragerði.