Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að vitanlega sé hann ekki ánægður með niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar MMR um fylgi stjórnmálaflokka, sem birt var í gær, hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í 19%.
„Auðvitað erum við óánægð með að mælast lág.“ Spurður hvort á áætlun sé að bregðast við fregnunum segir Bjarni að flokksforystan sé alltaf á tánum en „við bregðumst ekki sérstaklega við einstökum könnunum“.
Aðspurður segist hann ekki hafa tiltekna skýringu á því hvers vegna fylgið fari lækkandi en bendir á að flokkurinn hafi gjarnan fengið betri útkomu í kosningum en mælst hafi í skoðanakönnunum. „Svo ég lít ekki á þessa könnun sem einhver vatnaskil í þessum málum,“ segir hann og bætir við: „Við höfum samt metnað til þess að ná miklu betur í gegn og erum ekki ánægð með að mælast lág.“
Spurður hvort orkupakkamálið svokallaða sé ástæðan fyrir fylgistapinu svarar Bjarni: „Mér finnst að við höfum ekki náð nægilega vel í gegn með okkar málstað. Það mál hefur reynst okkur erfitt og þingið hefur beinlínis verið tekið í gíslingu vegna þess máls, sem varpar skugga á önnur góð verk ríkisstjórnarinnar. Við lítum á það sem eitt okkar helsta hlutverk að bæta lífskjör í landinu, og það hefur gengið frábærlega. Við höfum verið að vinna að mörgum langtímamálum sem hafa sömuleiðis gengið mjög vel. Það eru fá dæmi í sögunni um um jafn mikla lífskjarasókn og er núna,“ segir hann og segir: „En já ég tel að orkupakkamálið hafi varpað skugga á önnur góð verk okkar í ríkisstjórn undanfarin ár.“