Blaðamenn DV fengu ekki leyfi til að sitja fyrir Gunnari Rúnari Sigurþórssyni, sem afplánar á áfangaheimilinu Vernd, í því skyni að ná af honum viðtali líkt og reglugerðir gera ráð fyrir. Þetta staðfestir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is, en hann hafði ekki heyrt af málinu.
Gunnar var árið 2011 dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morð, en afplánar nú, átta árum síðar, á áfangaheimilinu Vernd þar sem hann þykir hafa sýnt af sér fyrirmyndarhegðun í fangelsi. Þaðan hefur hann ákveðið frelsi til að stunda vinnu og lifa lífi utan fangelsisins, en ber þó að dvelja á áfangaheimilinu þess utan.
DV birti í gær langa umfjöllun um Gunnar, þar sem brot hans eru rifjuð upp og sagt frá því að hann búi nú á Vernd. Blaðamaður DV sat fyrir Gunnari við heimilið, til að reyna að ná viðtali við hann, og náði í hann þar sem hann kom heim úr vinnu. Gunnar afþakkaði viðtalið pent og gekk rólegur til síns heima og eru samskiptin reifuð í fréttinni.
Í fréttatilkynningu sem Afstaða, félag fanga, sendi frá sér eru alvarlegar athugasemdir gerðar við fréttaflutninginn. Er meðal annars bent á að í 16. grein reglugerðar um fullnustu refsinga segi að fjölmiðill skuli skila skriflegri umsókn um viðtal við fanga til Fangelsismálastofnunar og sé heimildin veitt skuli stofnunin ákveða hvernig viðtalinu skuli háttað.
Páll Winkel fangelsismálastjóri staðfestir í samtali við mbl.is í dag að stofnunin hafi ekki veitt blaðamönnum DV leyfi til slíks umsáturs, en Páll hafði ekki heyrt af málinu þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali.
Í greininni er sagt frá því að Gunnar hafi lögheimili hjá móður sinni þar sem fatlaður bróðir hans býr einnig. Er heimilisfang fjölskyldunnar gefið upp í fréttinni. Vísar Afstaða til þess að í stjórnarskrá Íslands komi fram að allir skuli „njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu“ og þykir félaginu að það hafi blaðamaður DV ekki virt.
Félagið vísar enn fremur í siðareglur Blaðamannafélagsins þar sem segir að blaðamaður skuli forðast allt sem getur valdið fólki sem á um sárt að binda „óþarfa sársauka eða vanvirðu“.