„Takmarkað,“ svarar Jónas Jóhannesson, bóndi á Jörva, ekki langt frá Löngufjörum þar sem tugir grindhvala hlupu á land, þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn til hans og spyr hvort hann sé eitthvað að spá í hræin sem liggja þarna í nágrenninu. „Ég sé þarna út eftir en sé ekki hræin,“ segir hann um bústað sinn.
Spurður hvort hann hafi tekið eftir auknum mannaferðum í sveitinni eftir að fréttir voru fluttar af hvalrekanum kveður Jónas nei við en segir: „Það komu hérna tvær stelpur í gær að spyrja um þetta. Annað veit ég ekki.“ Þá segir hann aðspurður: „Ég held að enginn hérna í sveitinni sé sérstaklega að spá í þetta. Þetta er bara þarna og verður það.“ Menn séu fremur að spá í heyskap og búskap.
Spurður hvort hann telji þörf á að fara í aðgerðir, sem dæmi að grafa hvalahræin, segir Jónas að hann telji ekki þörf á því. Staðurinn sem um ræðir sé mjög fáfarinn, „kannski fjórum til fimm sinnum á ári“, en segir að mögulega muni það aukast að menn taki reiðtúr úteftir, til að skoða hvalina. „En það yrði mikill kostnaður af því að fara að grafa þetta. Og svo myndi það kannski ekki þýða mikið að grafa þetta þarna í sandinn, því mögulega kæmi þetta bara strax upp aftur.“
Þá segist hann vilja koma því á framfæri að fólk fari ekki að leita að hræjunum nema með leiðsögn. „Fólk á alls ekki að fara þarna nema með leiðsögn eða tala við kunnuga. Það getur verið hættulegt þarna.“