Náttúran skartar sínu fegursta þessa dagana og þar er fuglalífið engin undantekning. Víða eru komnir ungar og þeir sem fyrst komust á legg í vor eru löngu orðnir fleygir.
Samantekt um fuglalífið í Reykjavíkurborg birtist nýlega á heimasíðu borgarinnar. Þar kemur m.a. fram að kríuvarpið hafi farið seint af stað víða um land og þar sé kríuvarpið í Vatnsmýri og hólmanum í Þorfinnstjörn í Hljómskálagarðinum engin undantekning.
„Töluverður fjöldi fugla hefur verið í varpinu á báðum stöðum en vel yfir 50 hreiður eru í Vatnsmýri og um 20 í Þorfinnshólma. Fyrstu ungarnir hafa verið að líta dagsins ljós á síðustu vikum. Kríurnar verja ungana af krafti og vegfarendur eiga oft fótum sínum fjör að launa.“
Á Reykjavíkurtjörn, í Laugardal, við Elliðaár og við sjávarsíðuna má sjá andfugla, endur, gæsir og jafnvel álftir með unga. Flestar andategundir eru búnar að leiða út úr hreiðrum sínum en misjafnt er hvenær varp hinna ýmsu tegunda nær hámarki. Grágæsaungar eru orðnir vel stálpaðir og fylgja fjölskyldum sínum þar sem þær keppast við að bíta gras og aðrar gómsætar jurtir. Æðarkollur með unga synda með ströndum borgarlandsins og kafa eftir kræklingi og öðru góðgæti sem þær finna á grunnsævinu, að því er fram kemur í umfjöllun um fuglalífið í borginni í Morgunblaðinu í dag.