„Þetta er allt íslenskt grænmeti og beint frá bændum,“ segir Jón Jóhannsson staðarhaldari á Mosskógum í Mosfellsdal, hvar grænmetismarkaður er haldin nú þriðju helgina í röð. Spurður um söluvarninginn segir Jón að allt sé þetta girnilegt íslenskt grænmeti. „Kartöflur, gulrætur, blómkál, brokkolí og salat,“ segir hann og heldur áfram: „Vorlauk, lauk, spínatkál og sinnepskál og alls konar dót sem við erum með lítið af, og erum að reyna að koma fólki upp á bragðið með, annað en þetta hefðbundna íslenska.“
Segir hann að „mjög gott rennerí“ hafi verið í dag og að matarmarkaðurinn verði haldinn hvern laugardag fram á haust. „Það verður bara veðurfarið sem stoppar okkur af. Við höfum verið að keyra þetta í upp í tíu vikur,“ segir hann en markaðurinn er haldinn hvert sumar.