„Ég ætla ekki að fara í opinber rifrildi við fyrrum samstarfsfólk,“ segir Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata og einn stofnenda flokksins, á facebooksíðu sinni. Hún hefur að undanförnu verið borin þungum sökum af fyrrverandi samstarfsfólki sínu í þingflokki Pírata þar sem hún hefur verið meðal annars sökuð um einræði, að hafa valdið ósætti, grafið undan samherjum, beitt hótunum og andlegu ofbeldi.
„Lífið okkar á jörðinni er stutt. Það er mikilvægt að fólk missi aldrei trúna á því að það geti haft jákvæð áhrif á samfélag sitt. Aldrei fyrr höfum við sem nú lifum staðið frammi fyrir eins flóknum og erfiðum vandamálum,“ segir Birgitta ennfremur og bætir við að hún sé alls ekki sannfærð um „að besta leiðin til að koma á raunverulegum samfélagslegum breytingum sé í gegnum núverandi valdakerfi.“ Veltir hún upp þeirri spurningu hvernig mannfólkið geti beitt sér í þeim efnum og hverju þurfi að breyta fyrst.
Líflegar umræður komu í kjölfarið þar sem Birgitta var meðal annars hvött til þess að skapa nýjan vettvang þar sem rödd hennar þurfi að vera inni á Alþingi. Svaraði Birgitta því neitandi og bætti við síðar í umræðunni að hún ætlaði að halda áfram að hvíla sig „á [því] markmiði um að komast inn á þing. Þar er ekkert vald, valdið er hjá fólkinu, ef það bara vissi það.“ Og áfram síðar: „Þingið er sem betur fer ekki upphafið né endirinn að neinu. Það er rándýr skrautsýning framkvæmdavaldsins.“
Deilur hafa reglulega komið upp í röðum Pírata á liðnum árum en upphafið að þessu sinni var tilnefning Birgittu í trúnaðarráð flokksins. Þingflokkurinn lagðist gegn því að hún hlyti kosningu og beitti sér á félagsfundi fyrr í vikunni þar sem atkvæðagreiðslan fór fram. Fór meðal annars Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hörðum orðum um reynslu sína af samstarfi við Birgittu. Birgitta sagðist í kjölfarið hafa upplifað ákveðið mannorðsmorð á fundinum., Eftir fundinn gaf hún það út að hún ætlaði ekki að ræða við fjölmiðla um málið.