Ítarlegri kröfur í nágrannalöndum

Ljósmynd/Colourbox

Litlar kröfur eru gerðar um eignarhald bújarða hér á landi. Samkvæmt meginreglu 1. greinar laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem gilda um allar fasteignir í rýmri merkingu (þ.m.t. land) á Íslandi, er áskilið að menn megi ekki öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum nema þeir séu íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi. EES-borgarar njóta samt sem áður þess sama réttar hér á landi á grundvelli EES-samningsins og þá eru einnig hliðstæðar kröfur gerðar um þá sem koma að eignarhaldi fasteigna í gegnum félög, ýmist alla hluthafana eða meirihluta þeirra. Borgarar utan EES þurfa hins vegar heimild dómsmálaráðherra til þess að kaupa fasteignir hér á landi.

Búsetuskilyrði í 10 ár

Í samtali við Morgunblaðið í vikunni vonaðist Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, eftir því að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi yrði tilbúið í haust. Sagði hann þróunina á viðkomandi lagabálkum á síðustu árum vera óviðunandi og að þær breytingar sem gerðar hafi verið hafi tekið „niður allar eðlilegar girðingar hvað þetta varðar“. Sagðist hann vilja færa lagaumhverfið í átt að því sem tíðkast í Danmörku og Noregi.

Starfshópur um eignarhald á bújörðum sem skipaður var 16. júní árið 2017 hafði það að markmiði „í almannaþágu“ að takmarkanir sem fyrirhugað er að lögfesta í ábúðarlög og jarðalög skyldu stefna að því að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Álit starfshópsins fól í sér að slíkar takmarkanir skyldu einskorðarðar við land í landbúnaðarnotum, „þ.e. land sem skipulagt er sem landbúnaðarsvæði eða er nýtanlegt eða nýtt til landbúnaðar“. Til þess að ná fram markmiði sínu var litið til þess hvernig skilyrðum um eignarhald á fasteignum í dönskum og norskum rétti er farið en almennt setja þessi tvö ríki strangari skilyrði um eignarhald á fasteignum og bújörðum en Ísland.

Í Danmörku setja lagafyrirmæli eignarhaldi á fasteignum skorður þar sem stuðst er við búsetuskilyrði. Meginregla laganna byggist á því að til þess að eignast fasteign í Danmörku þurfi einstaklingur að hafa fasta búsetu í landinu eða að hafa áður haft búsetu þar í landi í fimm ár. Aðrir, þ.m.t. lögaðilar, þurfa að sækja um leyfi dómsmálaráðherra til að öðlast eignaréttindi yfir fasteign. Sérstakar takmarkanir eru svo á eignarrétti yfir fasteignum í landbúnaðarnotum samkvæmt lögum frá 2017 (lov om landbrugsejendomme). Lögin mæla fyrir um búsetuskilyrði sem áskilja fasta búsetu á fasteign í 10 ár. Einnig er þó heimilt að uppfylla þessa skyldu með því að byggja fasteignina ábúanda.

Leyfisskylda í Noregi

Í Noregi gildir sú meginregla um eignarhald á fasteignum (konsesjonsloven) að ekki er unnt að öðlast eignarréttindi yfir fasteignum nema með leyfi hins opinbera. Umsóknir um slík leyfi eru afgreiddar af viðkomandi sveitarfélagi þar sem hlutaðeigandi fasteign er staðsett.

Lögin í Noregi mæla fyrir um tilgreind búsetuskilyrði. Þar í landi þarf fasteignareigandi að flytjast þangað innan eins árs og búa í að minnsta kosti fimm ár sé landið yfir tilgreindri stærð (yfir 3,5 hektarar lands og yfir 50 hektarar skóglendis). Í lögunum eru einnig skilgreind hlutlæg atriði sem þarf að uppfylla til þess að leyfi sé veitt til þess að öðlast eignarrétt yfir landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þau skilyrði eru m.a. hvort markmið kaupandans fari saman við búsetu á svæðinu, hvort kaupin muni stuðla að hagkvæmum rekstri, hvort kaupandinn sé talinn hæfur til að yrkja landið og hvernig kaupin horfi við meðferð og nýtingu auðlinda, landsháttum og menningu á svæðinu.

Þessu til viðbótar er heimilt að líta til verðstýringar við mat þetta þegar um er að ræða landsvæði yfir 3,5 hekturum, en sérstök áhersla skal vera lögð á það að kaupverð sé forsvaranlegt miðað við verðlagsþróun. Aukinheldur heimila lögin að leyfisveiting sé skilyrt eftir aðstæðum í einstökum tilvikum þannig að við sérhverja leyfisveitingu fari fram mat á því hvort leggja skuli búsetuskilyrði á hlutaðeigandi landeiganda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka