Tilnefnd til verðlauna Chatham House

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er tilnefnd til verðlauna bresku hugveitunnar Chatham House árið 2019, en tilnefningarnar voru opinberaðar í gær. Þar er hún ekki í slæmum félagsskap, en ásamt henni eru þeir tilnefndir Sir David Attenborough, sjónvarpslíffræðingurinn heimsþekkti og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu.

Katrín er tilnefnd, samkvæmt umfjöllun á vef Chatham House, fyrir „einurð hennar við mótun framsækinnar stefnu Íslands á sviðum kynjajafnréttis og atvinnuþátttöku kvenna.“

Attenborough er tilnefndur fyrir að vekja upp mikla almenningsumræðu um plast í hafinu, með þáttum sínum Blue Planet II, sem sýndir voru á BBC, en náttúrusögudeild breska ríkisútvarpsins er raunar í heild sinni tilnefnd fyrir verkið.

Sir David Attenborough, hér að horfa á tennis á Wimbledon-mótinu …
Sir David Attenborough, hér að horfa á tennis á Wimbledon-mótinu á dögunum. AFP

Ahmed er svo tilnefndur fyrir viðleitni sína til að umbreyta stjórnarfari í Eþíópíu, fyrir að vera talsmaður málfrelsis og lýðræðis í ríkinu og fyrir að binda enda á áratugalangar illdeilur við nágrannaríkið Erítreu. Einnig fyrir að beita sér fyrir kynjajafnrétti og veita von um að friðsælari tímar séru framundan á svæðinu.

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu. AFP

Chatham House er bresk hugveita í alþjóðamálum, sem stofnuð var eftir fyrri heimsstyrjöldina og á sér því nærri 100 ára sögu. Hún hefur veitt verðlaun sín allt frá árinu 2005 og með þeim viðurkennt einstaklinga sem hafa átt mikilsverð framlög til alþjóðamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert