Minjastofnun Íslands fékk í síðustu viku umsókn um rannsóknarleyfi á Stjórnarráðsreitnum frá VG-fornleifarannsóknum, sem eru undirverktaki hjá Hellum og lögnum ehf. sem buðu lægst.
Sigurður Bergsteinsson, verkefnastjóri hjá Minjastofnun, sagði það geta tekið allt að fjórar vikur að afgreiða umsóknir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurð 17. júlí sl. vegna kæru Fornleifastofnunar Íslands ses. vegna útboðs Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir hönd forsætisráðuneytisins vegna fornleifauppgraftar á lóð við Stjórnarráðshúsið. Fornleifastofnun krafðist þess að val á tilboði frá Hellum og lögnum ehf. yrði fellt úr gildi. Úrskurðarnefndin hafnaði kröfunni.
Tilboð í verkið voru opnuð 18. desember 2018. Fornleifastofnun Íslands bauð 123,5 milljónir í verkið en Hellur og lagnir ehf. buðu 115,2 milljónir. Lægra tilboðinu var tekið.