Yfir sex hundruð tegundir

Hjónin Sigurður og Sigrún hafa búið allan sinn búskap á …
Hjónin Sigurður og Sigrún hafa búið allan sinn búskap á Markarflötinni í Garðabæ og átt ómældar gleðistundir í garðinum sem þau sinna af alúð. mbl.is/Ásdís

Fáir garðar eru jafn fallegir og garðurinn þeirra. Svo virðist sem hvert strá sé á sínum stað og grasflötin er eins og á bestu púttvöllum; grasið fagurgrænt og snöggklippt, enda slegið vikulega. Blóm, tré og jurtir fylla garðinn, sem þó er ekki yfirhlaðinn, en yfir sex hundruð tegundir jurta má þar finna. Sumar plöntur eru eins og af öðrum heimi en einnig má finna hefðbundnar plöntur eins og rósir og bláklukku, svo eitthvað sé nefnt. Vínberjaklasar hanga á grein í garðskálanum og berjarunnar, peru- og eplatré vaxa í garðinum og bera ávöxt þegar vel viðrar.

Í garðinum eru yfir 600 tegundir plantna og skráir Sigrún …
Í garðinum eru yfir 600 tegundir plantna og skráir Sigrún þær allar í tölvu. mbl.is/Ásdís

„Við höfum búið hér í fimmtíu ár núna um verslunarmannahelgina,“ segir Sigrún Andrésdóttir tónlistarkennari. „Við fluttum inn 2. ágúst 1969, en við byggðum húsið alveg frá grunni,“ segir eiginmaður hennar, Sigurður Þórðarson verkfræðingur. Hjónin urðu bæði áttræð á árinu og njóta nú efri áranna við garðrækt og söng eftir langa starfsævi.

Rækta garðinn sinn

Hjónin ganga með blaðamanni um garðinn sinn sem þau sýna með stolti, enda liggur að baki fimmtíu ára natni og vinna. Þau segjast ekki hafa hugmynd um hvað þau eyði miklum tíma í garðinum daglega. „Þetta gæti verið svona álíka langur tími eins og golfari eyðir í 18 holu golfhring á dag,“ segir Sigurður og hlær. Þau fara sjálf reglulega í garðinn til að snyrta og dytta að plöntum, slá og reyta arfa og þiggja þau sjaldan hjálp, nema að síðustu árin hafa tveir sterkir dóttursynir þeirra hjálpað þeim við erfiðustu verkin. „Það er mest að gera á vorin í garðinum,“ segir Sigurður og segir að sumrin fari í að halda garðinum við. Það má með sanni segja að hjónin hafi ræktað garðinn sinn í bókstaflegri merkingu.

Fingurbjargarblóm vaxa fyrir utan stofugluggann.
Fingurbjargarblóm vaxa fyrir utan stofugluggann. mbl.is/Ásdís

Er með rósadellu

Garðrækt, söngur og tónlist eru aðaláhugamál hjónanna og segja þau það fara vel saman; garðrækt á vorin og sumrin og tónlistin og söngurinn á veturna. Þau syngja í kór Vídalínskirkju og voru lengi í óperukórnum.

Spurð um uppáhaldstré eða plöntu svarar Sigurður: „Mitt uppáhaldstré er hlynur. Ég ólst upp við að rækta hlyn alveg frá því ég var unglingur. Síðan hafa þessi tré átt hug minn allan.“

Sigrún segir rósir í uppáhaldi. „Ég er með dálítið mikla rósadellu.“

Hjónin eru mjög skipulögð og heldur Sigrún skrá yfir allar plöntur garðarins og hvar þær eru. Listinn er alltaf að breytast og þá þarf að uppfæra hann jafnóðum. Þau vita nöfnin á flestöllum plöntunum en fletta þeim annars upp í skránni. Bæði segjast hafa gaman af að lesa sér til um garðrækt.

Þau segjast ekki hafa hugmynd um hvað þau eyði miklum …
Þau segjast ekki hafa hugmynd um hvað þau eyði miklum tíma í garðinum daglega. „Þetta gæti verið svona álíka langur tími eins og golfari eyðir í 18 holu golfhring á dag,“ segir Sigurður og hlær. mbl.is/Ásdís

Garðurinn hefur þrisvar verið valinn einn af fallegustu görðum Garðabæjar, en garðar eru valdir eftir tilnefningu.

„Fyrsta skiptið voru það börnin okkar þrjú sem létu vita af garðinum; þeim fannst hann svo fallegur,“ segir Sigrún og hlær. 


Ítarlegra viðtal er við hjónin Sigrúnu og Sigurð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert