Fish and Chips-vagninn fór með sigur af hólmi í Götubitakepninni sem haldin var um helgina á Miðbakkanum í Reykjavík. Af nógu var að taka af kræsingum, hamborgarar, pítsur, taco og fleira eins og blaðamaður komst að raun um á leið sinni um útisvæðið á dögunum.
Að lokum var það þó hinn íslenski fiskur, í erlendum umbúðum að vísu, sem stóð uppi sem sigurvegari. Sigurlaunin eru af betri endanum. Fish and Chips-vagninn verður sendur til Malmö í Svíþjóð þar sem hann mun etja kappi við erlenda götubita í alþjóðlegri keppni í september.
Fish and Chips-vagninn hefur verið starfræktur við gömlu höfnina í Reykjavík síðastliðin fimm sumur og verður engin breyting á í sumar. Nú þegar götubitahátíðinni er lokið fer vagninn aftur á sínar gömlu slóðir vestan fyrir slippinn þar sem opið er alla daga frá 11-21.
Í dómnefnd Götubitakeppninnar sátu Ólafur Örn Ólafsson hjá Kokkaflokki, Binni Löve samfélagsmiðlastjarna, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir kokkur, Shruti Bisappa, matargagnrýnandi Reykjavík Grapevine, og Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona á RÚV.
Auk verðlaunanna um besta götubitann verður kosið um götubita fólksins og gefst almenningi þar kostur á að velja sinn uppáhaldsstað. Hægt er að greiða atkvæði hér.