Lofar ekki kraftaverkum

„Þegar kemur að heilsu skiptir auður engu. Ég hef farið …
„Þegar kemur að heilsu skiptir auður engu. Ég hef farið víða um heim en það er eitthvað sem dregur mig hingað. Hjarta mitt er á Íslandi,“ segir Rahul Bharti frá Nepal. mbl.is/Ásdís

Rahul Bharti er tæplega fimmtugur Indverji sem helgað hefur líf sitt því að hjálpa náunganum. Hann hefur lært óhefðbundnar lækningaaðferðir; nudd, nálastungur og listina að beita skálum til þess að hreinsa út eiturefni. Hann nam fræðin af höfðingjum og lærimeisturum ættbálka víða um heim allt frá sjö ára aldri.

Bharti er kominn til Íslands í þriðja sinn til þess að hjálpa meðal annars Brandi Bjarnasyni Karlssyni, sem hefur þurft að nota hjólastól í áratug. Einnig hefur hann í hyggju að byggja hér upp miðstöð fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda og fór hann á Bessastaði til þess að spjalla við forsetann um sín hjartans mál.

Fæddist andvana

„Mamma var 48 ára þegar hún eignaðist mig og er í dag 96 ára. Að kvöldi 22. nóvember 1970 klukkan korter í miðnætti á sunnudegi var hún flutt í ofboði á börum til spítalans. Á leiðinni missti hún vatnið og ég spýttist út og lenti á götunni. Andartaki síðar fæddist annar drengur og er ég því tvíburi. En vandamálið var að bróðir minn grét en ég var lífvana og orðinn blár. Ég andaði ekki og þegar komið var með okkur á spítalann var ég úrskurðaður látinn; það var nú komið miðnætti og það var enginn púls. Um tvö um nóttina var farið með okkur heim og ég klæddur í föt fyrir jarðarför mína. Á þessum árum var ekki til siðs að aðskilja tvíbura þrátt fyrir lát annars og þeir voru hafðir saman þar til greftrun átti sér stað. Þannig að mamma og pabbi höfðu okkur þétt saman og alla nóttina var bróðir minn að setja höndina yfir mig og henda sér ofan á mig; það var mjög undarlegt því nýfædd börn eiga ekki að geta það. Klukkan tíu um morguninn kom presturinn til að jarða mig. Þá var bróðir minn látinn en ég á lífi,“ segir Bharti.

Hann segist seinna hafa spurt foreldra sína hvernig þeir vissu að þetta væri hann sem lifði en ekki bróður hans og svöruðu þau: „Af því að þú varst í fötum en bróðir þinn nakinn.“

Sextán ára svissneskur faðir

Fjölskyldan var afar fátæk og bjuggu þau í tjaldi á ströndinni. Fyrir utan tjaldið var kókóshnetutré og þar fannst Bharti gott að sitja sem lítill drengur.

„Þegar ég var tveggja ára sat ég gjarnan þarna við kókóstréð. Rétt hjá var kofi einn og þar fyrir utan sat ungt erlent par og ég man ennþá að þau héldu á súkkulaði og veifuðu því. Ég var forvitinn og hljóp til þeirra og fékk súkkulaðið. Þetta gerði ég marga daga í röð. Eina nóttina fundu foreldrar mínir mig ekki. Þegar unga parið opnaði dyrnar á kofanum lá ég þar sofandi á dyramottunni. Ég held ég hafi ekki getað beðið til morguns eftir súkkulaðinu. Frá þeim degi var ég í kringum þetta par og þau urðu heilluð af mér. Þau sögðust vilja hafa Rahul hjá sér. Ég hafði ekki hugmynd þá um að þau voru aðeins sextán og nítján ára; hann sextán og hún nítján,“ segir hann.

Unga parið fékk þá flugu í höfuðið að reyna að ættleiða litla drenginn.

„Pabbi hringdi í pabba sinn og sagðist vilja ættleiða mig, en hann er einkasonur mjög ríks manns í Sviss. Þau gátu auðvitað ekki ættleitt mig löglega þar sem þau voru svo ung. Afi sagði bara nei. Hann átti fimm dætur og einn son og að sjálfsögðu vildu þau amma ekki að sextán ára sonur þeirra ættleiddi barn frá Indlandi. Þá sagði pabbi við afa að ef hann gengi ekki að þessu myndi hann aldrei gifta sig og aldrei eignast börn. Þannig að hann setti honum stólinn fyrir dyrnar og afi flaug til Indlands, til Goa. Hann fór í svissneska sendiráðið og vegna aldurs föður míns ættleiddi afi minn mig. Þannig að í raun er afi minn löglega faðir minn.“

Rahul Bharti bjó og lærði hjá ættbálkum þegar hann var …
Rahul Bharti bjó og lærði hjá ættbálkum þegar hann var barn og unglingur og þvældist víða um heiminn. mbl.is/Ásdís

Sjö ára í nuddskóla

Bharti bjó í Sviss á árunum 1972-1977 en eftir skilnað foreldranna flutti hann til Taílands með föður sínum. „Þar var ég settur í alþjóðlegan skóla og ég man að þar var kona frá Þýskalandi sem var að læra nudd og vantaði einhvern til að æfa sig á. Hún spurði pabba, sem var upptekinn þannig að ég fékk nuddið. Þarna var vendipunktur í lífi mínu, en líf mitt er svo flókið að ég tala sjaldan um það,“ segir hann og brosir.

„Ég var svo tvö ár í skólanum og varð einn af þeim bestu. Sem barn var ég fljótur að læra og varð fljótt eins konar leiðbeinandi þarna. Árið 1979 áttaði ég mig á því að ég hafði einungis verið að læra um líkamann en ég vissi að það var eitthvað meira handan hans. Ég sá að fólk var fullt af tilfinningum og vissi ekki hvaðan þær komu. Þannig að ég ákvað læra um það; hvernig líkaminn virkaði. En ég vissi ekki hvar ég ætti að byrja og einhver nefndi Srí Lanka. Ég sagði pabba að við þyrftum að fara til Srí Lanka og hann hélt að ég væri að missa vitið. En hann vissi að allar ákvarðanir sem ég tæki væru góðar.“

Á meðal nakinna frumbyggja

Þess má geta að þarna er Bharti aðeins níu ára gamall en engu að síður ákvað faðir hans að láta drauma drengsins rætast. „Við fórum til Colombo og ég vissi ekki hvar ég ætti að byrja og fór að leita. Ég hitti dreng á mínu reki á ströndinni og við urðum vinir. Í nokkra daga fór ég með honum heim, en hann bjó með fjölskyldu sinni í eins konar tjaldi. Faðir hans var heilari og fólk streymdi til hans og ég sá að því leið betur þegar það fór. Ég spurði hvort hann gæti kennt mér og hann játaði því. Svo kom vinur minn til mín og sagði að þau þyrftu að flytja og það kom í ljós að þau voru sígaunar sem fluttu á vikufresti. Þau máttu ekki vera nema sjö daga á sama stað,“ segir Bharti, sem útskýrir að fólkið flutti stanslaust á milli tjalda.

„Ég fór þá til pabba og sagðist vilja ferðast með þessu fólki. Við komumst að því að þessi heilari vissi allt um orku líkamans. Hann var eins konar konungur þessara sígauna. Hann sagði pabba að það tæki þau tvö ár að ferðast hringinn, fram og til baka á milli tjalda frá Colombo til Galle. Pabbi vissi ekki sitt rjúkandi ráð og spurði hvernig hann ætti þá að finna mig. Hann sagði pabba að hann þyrfti bara að spyrja um höfðingjann og þá myndi hann finna mig í einu af þessum tjöldum á strandlengjunni. Pabbi leyfði mér að ferðast með þessum sígaunum en fór sjálfur til Indlands. Eftir um sex mánuði sagði heilarinn við mig að ég þyrfti að hitta lærimeistara sinn en ég var hissa að hann væri með lærimeistara. Það reyndist vera faðir hans og við gengum í þrjá daga úti í náttúrunni og komum þá að þorpi þar sem allir gengu um naktir. Algjörlega naktir,“ segir Bharti.

„Ég fór þá að búa með þeim þarna og gekk um nakinn eins og þau og lærði hjá þessum manni sem var sjaman, eða galdralæknir.“

„Síðan þá hef ég verið að kenna og leiðbeina víða um heim. Ég er með námskeið og þeir betur efnuðu borga það sem þeir vilja en hinir fá frítt. Ég kenni öllum og rukka engan um neitt. Brandur kom til Nepals ásamt tíu manna hópi og þau bjuggu frítt hjá mér og hann fékk alla meðferðina ókeypis. Ég er hér á Íslandi fyrir hann og hann er að verða fúll út í mig því hann vill borga mér eitthvað en konan mín sagði honum að það væri af og frá, við myndum þá hætta meðferðinni,“ segir hann og brosir.

Ræddi við forsetann

Nú er Rahul Bharti á Íslandi í þriðja sinn og segist munu koma hingað oft í framtíðinni. „Mig langar að huga að heilsu fólks á Íslandi,“ segir Bharti. „Ég kom hingað fyrst fyrir þremur árum en ég hef ferðast til 60% landa heims og þegar ég lenti á Íslandi skynjaði ég að landið væri orkumikið. Ég fann það um leið og ég lenti. En ég skynjaði að fólk hér væri þunglynt og skildi ekki af hverju. Þannig að ég kom aftur og fór að halda námskeið. Ef sextán manns sóttu námskeið voru kannski tveir sem borguðu en hinir fengu frítt. Þannig virkar það með námskeiðin mín,“ segir hann.

Rahul Bharti fór ásamt Brandi Bjarnasyni Karlssyni að heimsækja forsetann …
Rahul Bharti fór ásamt Brandi Bjarnasyni Karlssyni að heimsækja forsetann og vel fór á með þeim. Ljósmynd/Aðsend


„Svo fékk ég tækifæri til að hitta forseta ykkar og það er fallegasti maður sem ég hef á ævi minni hitt. Ég spurði hann um Íslendinga og hann sagði að margir hér væru niðurdregnir og ég fann að það olli honum sorg. Hann spurði mig hvað væri til ráða. Ég sagði honum frá hugmynd minni að opna hér miðstöð, ókeypis fyrir alla, fyrir alla þá, fatlaða og ófatlaða, sem þurfa hjálp,“ segir hann og nefnir að hér á landi séu margir færir heilarar.

„Mig langar að bjóða þeim að koma saman á ráðstefnu og fá þá til að vinna saman að einu markmiði. Annað sem mig langar að gera er að bjóða hundrað Íslendingum að koma að læra hjá mér, þeim að kostnaðarlausu,“ segir hann.

Lofa engu kraftaverki

„Í dag erum við að vinna með Brandi sex tíma á dag; þrjá tíma á morgnana og þrjá á kvöldin,“ segir Bharti og tekur fram að hann sé ekki að vinna kraftaverk.

„Við erum ekki að lækna neinn heldur erum við að efla fólk sjálft til dáða. Við hjálpum því að gefast ekki upp eða gefa upp alla von. Við lofum engum kraftaverkum en lofum að vera til staðar og hjálpa fólki að vera elskað og elska. Við ýtum fólki til hins ítrasta; við erum að gefa því smá spark til þess að halda áfram,“ segir Bharti.

Þess má geta að Brandur missti smátt og smátt máttinn í öllum líkamanum og hafa læknar enn ekki fundið ástæðuna en hann lenti ekki í mænuskaða. „Samkvæmt læknavísindum mun Brandur ekki geta hreyft sig framar. Ég er mjög mikið fyrir áskoranir og ég hef verið að vinna með mannslíkamann alla ævi þannig að ég var til í þessa áskorun,“ segir Bharti, sem bauð honum til sín til Nepals á árinu og vill hjálpa honum á fætur ef mögulegt er. Í Nepal hjálpaði hann honum að breyta um lífsstíl og þjálfa vöðva hans. Stífar æfingar voru alla daga, sjö daga vikunnar, og er á dagskrá að halda því áfram í tvö ár. Brandur hefur styrkst mikið og hefur jafnvel fengið örlitla hreyfigetu þar sem áður var engin.

„Nú eru liðnir fjórir mánuðir. Við höfum byggt upp vöðvana og náð að minnka bjúg í líkamanum. Hann hefur misst átta kíló og hér sérðu hvað hann getur gert,“ segir Bharti og sýnir blaðamanni myndband af Brandi að lyfta tíu kílóa stöng í bekkpressu. „Við erum hér heilt teymi að þjálfa hann eins og hann væri ungbarn. Við viljum að hann byggi upp sjálfstraust til að hann geti náð árangri. Við viljum hvetja hann áfram,“ segir hann.

„Við höldum áfram hvort sem hann nær einhverjum bata eða ekki. Hann hefur engu að tapa. Dropinn holar steininn, þannig að við gefumst ekki upp.“

Brandur og Alma giftu sig að Nepölskum sið en þau …
Brandur og Alma giftu sig að Nepölskum sið en þau bjuggu frítt hjá Bharti í þrjá mánuði. Ljósmynd/Aðsend


Spurður hvers vegna hann kjósi að hjálpa Íslendingum sem hafa nóg til hnífs og skeiðar í stað þess að beina öllum kröftum sínum að fátækum svarar hann: „Þegar kemur að heilsu skiptir auður engu. Ég hef farið víða um heim en það er eitthvað sem dregur mig hingað. Hjarta mitt er á Íslandi.“


Ítarlegt viðtal er við Rahul Bharti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert