Sjálfstæðismenn safni undirskriftum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/RAX

„Deilur meðal sjálfstæðismanna um orkupakka 3 hafa verið harðar og fara harðnandi. Það er kominn tími á að láta lýðræðið ráða för.“

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sinni þar sem hann hvetur til þess að atkvæðagreiðsla fari fram innan Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins, en forysta flokksins hefur beitt sér fyrir því að pakkinn verði samþykktur á Alþingi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

Styrmir vísar til þess að í 6. grein skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins segir að miðstjórn flokksins sé skylt að láta fara fram almenna kosningu á meðal flokksmanna um tiltekið málefni berist skrifleg ósk um það frá að minnsta kosti 5.000 flokksbundnum félagsmönnum þar sem að minnsta kosti 300 koma úr hverju kjördæmi.

„Þessar reglur eru skýrar. Þeim er ekki hægt að stinga undir stól. Það blasir við að andstæðingar orkupakka 3 innan Sjálfstæðisflokksins noti næstu vikur til að safna þessum fjölda undirskrifta og knýi með því fram atkvæðagreiðslu meðal allra flokksbundinna meðlima um málið,“ segir Styrmir ennfremur og bætir við: „Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðislegur stjórnmálaflokkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka