Úr sjónum í ruslið

Þorsteinn með aflann, sem hann segist sækja nokkrum sinnum í …
Þorsteinn með aflann, sem hann segist sækja nokkrum sinnum í viku. Veiði var góð í þetta sinn, þótt sennilega megi deila um hvort það sé gott eða slæmt. mbl.is/Alexander

Þorsteinn Stefánsson hefur marga fjöruna sopið. Um árabil veiddi hann fisk, sem varla er í frásögur færandi, en er blaðamaður átti leið um gömlu höfnina rak hann augu í annan og áhugaverðari afla Þorsteins, nefnilega rusl.

„En þetta er nú engin saga, og má alls ekki vera langt,“ segir Þorsteinn áður en hann hefur frásögnina, sem verður þó í lengra lagi.

Þorsteinn er ruslakarl gömlu hafnarinnar, sér um að tæma þar tunnur og fanga aflann sem endað hefur í sjónum. Til þess notar hann forláta háf og beitir honum á hafnarsvæðinu nokkrum sinnum í viku. Ekki veitir af; aflinn virðist góður og skundar Þorsteinn rakleitt með hann inn í bílinn sinn, sem sennilega mætti kalla snyrtilegasta ruslabíl sem fyrirfinnst í borginni.

Þótt Þorsteinn sé orðinn áttræður er hann roskinn og ern, en hann hefur séð um hreinsunarstarfið í verktöku hjá Faxaflóahöfnum um nokkurra ára skeið, og heldur sér þannig við.

Hann segir nauðsynlegt að hafa mann í verkinu. Ruslið hendir sér jú ekki sjálft, og fyrir hans tíð hafi það bara dagað uppi í sjónum óáreitt. Aukinni umferð ferðamanna um svæðið fylgir líka meira rusl og Þorsteinn sér nú um að tæma tuttugu ruslatunnur á hafnarbakkanum, auk þess að fiska rusl úr sjó.

Einum túr frá sjóslysi

Hafið hefur alla tíð átt hug hans allan, eins og glöggt má sjá af akkeri sem hann hefur húðflúrað á vinstri úlnlið til að minna sig á upprunann.

Þorsteinn og ruslabíllinn.
Þorsteinn og ruslabíllinn. mbl.is/Alexander

Hann ól manninn í Reykjavík og Biskupstungum en flutti 26 ára til Tálknafjarðar og hefur starfað á nokkrum togurum í gegnum árin meðal annars Narfa, fyrsta frystitogara landsins. Þá var hann á Röðli í Hafnarfirði og skuttogaranum Má. „Á þessum tíma gengu menn í öll störf ef þeir kunnu til sjós,“ segir Þorsteinn og bætir við að hann hafi starfað sem stýrimaður, vélstjóri, háseti og kokkur. Nokkurn veginn allt annað en skipstjóri. Lengst af var hann þó annar vélstjóri.

Hann á erfitt með að sleppa takinu af sjómennskunni og tók síðast tvo túra á Örfirisey, togara HB Granda, fyrir tveimur árum. Þá hafi hann verið messagutti.

Sjómennskan nú er allt annars eðlis en þegar Þorsteinn hóf störf og sjóslys voru árlegt brauð. Hann rifjar upp að árið 1968 hljóp hann í skarðið fyrir stýrimann á bátnum Sæfara sem gerður var út frá Tálknafirði. Veður var vont og hann hafði ekki komist vestur úr höfuðstaðnum. Þegar veður hafði lægt og áhöfnin var aftur komin til starfa hélt báturinn síðan í næsta túr í miklu hvassviðri og vondu skyggni. Fórst báturinn og allir sex um borð, meðan Þorsteinn var í landi.

Þorsteinn á túrnum fyrir tveimur árum, um 50 sjómílum vestan …
Þorsteinn á túrnum fyrir tveimur árum, um 50 sjómílum vestan af Vestfjörðum. Ljósmynd/Aðsend

Byggði Seðlabankann

Hafið er samt ekki það eina sem hefur komist að hjá Þorsteini. Hann hefur komið víða við á viðburðaríkum ferli og lærði meðal annars húsasmíði. Við það starfaði hann lengi og vann til að mynda um tveggja ára skeið að byggingu Seðlabanka Íslands á níunda áratugnum. Hér áður fyrr sást það hús greinilega frá hafnarbakkanum, en það er liðin tíð. Nú skyggja nýbyggð hótelin á húsið, sem hann segir haganlega byggt og mikla prýði af.

Þá gerði hann út trillu frá Tálknafirði á sjöunda áratugnum, fyrir tíma kvótakerfisins þegar hægt var að hafa lifibrauð af slíku. „En það hefur verið farið mjög illa með þennan útgerðarflokk.“ Húsasmíði og sjómennska eru krefjandi störf, og þegar Þorsteinn varð sextugur ákvað hann að söðla um og gerast sundlaugarvörður, fyrst í Vesturbæjarlaug en síðar í Sundhöllinni. 

Áður en hann sagði skilið við laugarnar, fyrir um tíu árum, til að setjast í helgan stein að nafninu til, keypti hann trillu á ný. Í þetta sinn var það Úrdína, bátur sem feðgar frá Lambavatni á Rauðasandi létu smíða árið 1978. Trillan er í toppstandi og upprunaleg Volvo-vélin enn til staðar. „Það hentar gömlum karli vel að komast út á sjó og viðra sig endrum og eins,“ segir hann, en trilluna notar hann til að veiða í soðið. Ekki má hann jú selja aflann lengur.

Hér sæist í Seðlabankann ef ekki væri fyrir hálfbyggð ferlíkin …
Hér sæist í Seðlabankann ef ekki væri fyrir hálfbyggð ferlíkin sem einhvern tímann verða að íbúðum og verslunarrýmum. mbl.is/Alexander
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert