„Það er meira af verkefnum það sem af er sumri en það sem var síðasta sumar enda var það í rólegri kantinum. Þá var rok og rigning og enginn nennti upp á hálendi. Nú er staðan svolítið önnur,“ segir Jónas Guðmundsson, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, um hálendisvaktina.
Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá er hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfrækt nú fjórtánda sumarið í röð og rekur vaktir að Fjallabaki, í Nýjadal á Sprengisandi og Drekagili í Öskju, auk mannskapar í Skaftafelli í Öræfum.
Hálendisvaktin fór fyrr af stað í sumar en fyrri sumur, um miðjan júní, og fann Jónas fyrir þörfinni strax frá byrjun. „Fótbrot og slys, við erum nokkrum sinnum búnir að þurfa að fá sjúkraflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar,“ segir hann, spurður um verkefnin sem vaktin hefur þurft að sinna til þessa.
Spurður hvort hann finni fyrir því að Íslendingar séu meira að sækja fjöllin í ár, sökum þess að í fyrra hafi verið verra veður og innlendir því frekar kannski setið heima, segist Jónas ekki finna fyrir því.