„Þeir fara ekki inn í Seljaneslandið fyrr en búið er að hafa samráð við landeigendur og koma því þannig fyrir að hér verði sem minnst rask á landinu, vegna þess að hér er einstakt landsvæði og einstök náttúrufegurð.“
Þetta sagði Guðmundur Arngrímsson, talsmaður hluta landeigenda að Seljanesi við Ingólfsfjörð, í samtali við Morgunblaðið um vegaframkvæmdir Vesturverks vegna Hvalárvirkjunar. Þær munu í dag halda áfram eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði kröfum landeigenda og umhverfisverndarsamtaka um stöðvun framkvæmdanna.
„Ég gef ekkert upp um það. Ég er bara hérna á jörð forfeðranna að kíkja á mína átthaga“ sagði Guðmundur, þá staddur á Seljanesi í gærkvöld, spurður hvort hann væri mættur til að taka þátt í mótmælum.