Hvaltönn fyrir lengra komna „lovera“

Hvalhræin í Löngufjöru á Snæfellsnesi.
Hvalhræin í Löngufjöru á Snæfellsnesi. mbl.is/RAX

Skartgripasalar hafa lýst yfir áhuga á að smíða skartgripi úr tönnum og beinum grindhvalanna sem strönduðu í Löngufjörum á Snæfellsnesi.

Að sögn Þorgríms Leifssonar, annars af landeigendum Litla-Hrauns, hafa nokkrir skartgripasalar á höfuðborgarsvæðinu haft samband við hann. „Fleiri en einn skartgripasali vill hengja þetta á brjóstið á fallegum konum og körlum,“ segir Þorgrímur. „Tönn á brjóstinu er fyrir lengra komna „lovera“.

Vísir ræddi fyrr í dag við Þorgrím. 

Tennurnar og beinin verða tekin þegar hræin rotna og er Þorgrímur þegar búinn að merkja staðinn. Ef þörf krefur verða þau hífð upp úr sandinum í Gömlueyri með traktor.

„Aðalmálið er að rata þarna niður eftir, fara sér ekki á voða og bera virðingu fyrir sjónum. Við kunnum það Vestlendingarnir að skepnur sem fæðast ekki á þessu svæði drukkna bara. Það þarf að alast upp þarna til að lifa af. Það eru svo mikil læti í sjónum á stundum, sérstaklega í vestanáttinni,“ greinir hann frá.

Spurður hvort skartgripir úr tönnum og beinum hvala séu verðmætir segir hann að ef einhver hefur gaman af þeim sé það „bara æðislegt“ en hvaltennurnar eru um fimm sentímetra langar.

Hræ grindhvala í Löngufjörum.
Hræ grindhvala í Löngufjörum. Ljósmynd/David Schwarzhans
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert