Til stendur að tveir sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun fari á morgun og skoði tugi grindhvala sem rak á dögunum á land í Löngufjörum á Snæfellsnesi.
Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, fer á staðinn við annan mann en hann segir í samtali við mbl.is að ætlunin sé að framkvæma mælingar á hvölunum og taka sýni. Meðal annars til þess að kanna fjölskyldutengsl hvalanna.
Gert er ráð fyrir að sérfræðingarnir tveir verði seint á ferðinni á morgun vegna sjávarfalla en erfitt er að komast að þeim stað hvar hvalirnir eru nema á háfjöru.