„Ætli þeir hafi ekki bara verið að forvitnast eins og krakka er oft siður. Ef þú ert á svæði sem er óstöðugt og getur valdið skaða þá ertu alltaf í hættu. Þetta er hvorki svæði fyrir krakka né fullorðna. Þetta er bara hættulegur staður,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri í Reykjaneshöfn, um fjóra táninga sem voru um borð þegar togarinn Orlik byrjaði að sökkva í Njarðvíkurhöfn í nótt.
Halldór segist ekki vilja til þess hugsa ef illa hefði farið, en litlu mátti muna að rússneski togarinn hefði sokkið. Með skjótum viðbrögðum tókst að koma í veg fyrir það og segir Halldór mikilvægt sé að koma skipinu í burtu sem fyrst.
„Þetta gekk vonum framar. Útlitið var ekki gott en þetta eru góðir menn sem sinntu þessu verki og þeir stóðu sig alveg með prýði.“
Halldór telur krakkana hafa verið á aldrinum 13 til 15 ára og telur hann ólíklegt að þeir hafi áttað sig á því sem væri að gerast og alvarleika málsins.
„Ég hefði ekki viljað hugsa til þess ef það hefði farið illa. Það hefði verið mjög, mjög hörmulegt.“
Sigurður Stefánsson hjá Köfunarþjónustu Sigurðar kom fyrstur auga á lekann um klukkan tíu í gærkvöldi. Mikill sjór reyndist í vélarrúmi skipsins og hóaði Sigurður saman mannskap, til að dæla úr skipinu. Hann tók einnig eftir fjórum táningum um borð í togaranum sem höfðu enn ekki áttað sig á því að skipið væri að sökkva. Kom hann þeim frá borði hið snarasta og engan sakaði.