Valdið hverfur ekki með formannsleysi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flati strúktúrinn gengur á meðan allir sem taka þátt í litlum hópi eru á sömu blaðsíðunni um það hvernig hlutirnir eiga að vera,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is um það fyrirkomulag innan flokksins að vera án formanns.

Helgi Hrafn hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag með vísan til reynslunnar af því og sama gerði Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, fyrir síðustu helgi þar sem hún sagði að „flatur strúktúr“ ætti ekki að þýða að enginn strúktúr væri til staðar. Þetta fyrirkomulag hefði hins vegar leitt til ákveðinnar óreiðu innan flokksins þar sem endalaust hefði verið hægt að færa til mörk. Þetta hefði skapað jarðveg þar sem hinn frekasti réði. Þar vísaði hún til Birgittu Jóndóttur, fyrrverandi þingmanns Pírata, sem fyrrverandi samherjar hennar í þingflokki flokksins hafa gagnrýnt harðlega að undanförnu.

Helgi segir markmiðið með „flata strúktúrnum“ gott og æskilegt en að það sé ekki endilega ósamrýmanlegt því að vera með formann. Valdið hyrfi ekki með því að vera ekki með formann. Það væri til staðar eftir sem áður. Hins vegar væri hægt að formbinda valdið og setja því skorður. Til dæmis að formaður hefði í raun engin völd og sæi ekki um stefnumótun. Hægt væri hins vegar til dæmis að leita til hans þegar upp kæmu vandamál.

Ekki vitað um vandamál fyrr en sýður upp úr

„Það eru enn ýmis vandamál sem þarf að leysa innan Pírata sem eru ekki endilega tengd þessu máli með Birgittu. Til dæmis að fjölmiðlar vita oft ekki hvern þeir eiga að tala við í flokknum. Ef það koma upp ágreiningsmál í honum þá er engin augljós boðleið til þess að fólk viti hvern það á að tala við og þá veit kannski enginn af vandamálum í einstökum félögum innan flokksins áður en allt er kannski komið í bál og brand.“

Þannig verði svo lítil meðvitund um vandamálin fyrr en þau eru orðin svo stór að þau eru komin út um allt, segir Helgi. „Það þarf að sjóða upp úr einhvers staðar til þess að tekið sé eftir því.“ Samstarfið í þingflokknum gangi sérstaklega vel núna og enginn í honum kæri sig um að taka að sér formannshlutverk. „En um leið og það breytist, og það breytist einhvern tímann, þá er svo mikilvægt að umboðið sé lýðræðislegt.“ Fyrir vikið telur Helgi að núverandi aðstæður séu góðar til þess að breyta fyrirkomulaginu.

Hugsanlegur formaður hafi þannig verið valinn lýðræðislega af Pírötum en ekki að einhver einfaldlega taki sér þau völd sem hann vildi eins og og hafi gerst með Birgittu. Það þurfi að vera einhver lýðræðisleg umgjörð og fyrirkomulag í þeim efnum. „Stóri misskilningurinn felst í því að með því að hafa ekki formannsembætti þá gufi valdið upp. Það sem gerist er að það verður til valdatómarúm, þetta er vel þekkt í sögunni, og þetta tómarúm er fyllt af þeim sem er sterkastur í að sanka að sér völdum,“ segir Helgi.

Formenn annars staðar innan flokksins

Formannsembætti þurfi einfaldlega að skilgreina vel. Bæði hvað varðar það sem formaður eigi að gera og það sem hann eigi ekki að gera. „Meðan þetta er óskilgreint og engin takmörk til staðar þá getur einhver bara tekið sér þessa stöðu og gert það sem honum sýnist, ber enga ábyrgð og þarf ekki að virða nein mörk vegna þess að þau hafa hvergi verið skilgreind.“ Formenn séu alls staðar annars staðar innan Pírata.

„Við erum með formenn í hverri einustu stofnun innan Pírata, hverju einasta aðildarfélagi nema í flokknum sjálfum. En samt er einhver ótti við að sá formaður gæti orðið einráður. En það þarf ekkert að vera þannig. Það er hægt að skilgreina formannsembættið þannig að formaður hafi hvorki stefnumótunarvald né dagskrárvald heldur hafi það hlutverk fyrst og fremst að vita hvað er í gangi og hvernig eigi að tengja fólk saman.“

Formannsembætti þurfi ekki að vera hefðbundið og geti vel verið óhefðbundið. „Það er alfarið okkar að ákveða með hvaða hætti þetta hlutverk virkaði. Valdið er þegar til staðar. Það er bara óskilgreint, óheflað og ekki lýðræðislega ákvarðað. Óttinn við formannsembætti felst í ótta við vald og sá ótti er alveg réttmætur. En það þýðir ekki að formannsleysi sé leiðin til þess að ná fram valddreifingu.“

Þannig segist Helgi ekki hafa gefið valddreifingu upp á bátinn heldur virki aðferðafræðin sem hafi verið notuð ekki að hans mati og geti haft þveröfug áhrif komist sterkur einstaklingur í þá aðstöðu að hrifsa til sín valdið án nokkurra marka og án lýðræðislegs umboðs. Þingflokkurinn starfi afar vel saman í dag en eftir næstu kosningar gæti hann verið samsettur á allt annað hátt. Í dag sé ekkert augljóst formannsefni og enginn sérstaklega að sækjast eftir því. „Þannig að núna er góður tími til að breyta þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert