Litlu mátti muna að rússneski togarinn Orlik hefði sokkið í Njarðvíkurhöfn í nótt. Með snörum viðbrögðum náðist að koma í veg fyrir það en kostnaður við að ná sokknu skipi úr höfninni gæti auðveldlega verið í kringum 200 milljónir króna. Vonir standa til að losna við skipið á næstu dögum.
Í myndskeiðinu má sjá skipið í höfn en þegar ástandið var sem verst í nótt lá það nokkrum metrum neðar og Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafna, segir að hægt hafi verið að horfa yfir á þilfarið af hafnarbakkanum.
Ekki mátti miklu muna að skipið ylti á hliðina að sögn Halldórs en afar kostnaðarsamt yrði að greiða úr þeirri stöðu. Hann nefnir til samanburðar aðgerðir til að losa sanddæluskipið Perlu úr Reykjavíkurhöfn sem voru á bilinu 150-200 milljónir króna en Orlik er mun stærra skip en Perla.
Nú er búið að veita heimild fyrir því að rífa skipið og vonast Halldór til að losna við skipið úr höfninni á næstu dögum. Þá yrði skipið sem er 1.800 brúttótonn flutt í Skipasmíðastöð Njarðvíkur til niðurrifs. „Við höfum ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu og við verðum að sjá fyrir endann á þessu,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.