Ekki er tilefni til að efna til atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokks vegna þriðja orkupakkans miðað við inntak málsins og eðli þess, að mati Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokks.
Aðspurður segir hann engin fordæmi fyrir því að heimildinni hafi verið beitt og að hún hafi nýlega komið inn í skipulagsreglur flokksins. Hann kveðst ekki vita til þess að undirskriftasöfnun sé hafin.
Birgir vísar til þess að þriðji orkupakkinn feli ekki með neinum hætti í sér þær stórfelldu breytingar sem stundum séu látnar í veðri vaka. „Þetta mál hefur að mínu mati fengið mun meiri umfjöllun og gagnrýni en innhald þess gefur tilefni til. Það er út af fyrir sig staða sem þarf með einhverjum hætti að bregðast við, en gefur að mínu mati ekki tilefni til almennrar atkvæðagreiðslu,“ segir Birgir sem á von á því að fundarhöld verði vegna málsins og stöðunnar í stjórmálum almennt á næstu vikum. „Þingflokkurinn hefur rætt það, vegna þessara skiptu skoðana innan flokksins, að það sé brýnt að nota sumarið til að eiga samtöl við flokksmenn með einum eða öðrum hætti og ræða þetta mál, koma sjónarmiðum á framfæri og hlusta á athugasemdir,“ segir Birgir.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, kvaðst í samtali við blaðið hafa orðið var við efasemdir um orkupakkann, m.a. í þingflokki sjálfstæðismanna. Birgir segir að það verði að koma í ljós hvort einhverjir þingmenn greiði atkvæði öðruvísi en aðrir í þingflokknum. „Ég veit það eitt að þegar ákvarðanir voru teknar í þessum efnum innan þingflokksins, þá var það gert án andmæla og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að sú samstaða sem verið hefur í þingflokknum haldist,“ segir Birgir.
Viðmælendur blaðsins úr hópi andstæðinga þriðja orkupakkans innan flokksins vilja sumir flýta flokksráðsfundi sem halda á í september nk. og halda hann áður en þing kemur saman og ræðir orkupakkann. Birgir segir það ekki raunhæfan kost. „Flokksráðsfundur er haldinn af öðru tilefni og til þess að fjalla almennt um stefnumörkun flokksins, en ekki til að taka afstöðu til einstakra mála. Það er nokkuð umhendis að færa jafn stóran og viðamikinn fund til,“ segir hann og vísar til þess sem fyrr kom fram, að annar vettvangur verði notaður til þess að ræða málin.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Matthildur Skúladóttir, stjórnarmaður í Verði - fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, andstæðinga orkupakkans svekkta yfir því hvernig komið er og margir séu óánægðir með ríkisstjórnina.