Fjöldi landsela lá á Löngufjörum á sunnanverðu Snæfellsnesi á laugardaginn var og sólaði sig í sumarblíðunni.
Að sögn Ragnars Axelssonar ljósmyndara, sem flaug þar yfir og tók myndina, sýnir hún aðeins brot af selamergðinni sem þar var. Selirnir höfðu markað slóðir í hvítan fjörusandinn þar sem þeir höfðu mjakað sér til sjávar eða aftur á land og stjakað sér áfram á hreifunum.
Landselastofninn hefur veikst talsvert samkvæmt talningum og nú er svo komið fyrir honum að Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að sett verði bann við beinum veiðum á tegundinni. Einnig verði leitað leiða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar. Landselir hafa verið taldir reglulega frá árinu 1980. Stofninn er nú metinn vera 72% minni en 1980 en 23% stærri en 2016. Samkvæmt mati eru nú 9.400 dýr í stofninum en lágmarksstærð hans á að vera 12.000 selir.