Of fá gjörgæslurými miðað við íbúafjölda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Heilbrigðisráðherra segir að bréf Reynis Guðmundssonar, sem bíður eftir því að komast í hjartaaðgerð á Landspítalanum, hafi vakið athygli stjórnvalda og það gefi tilefni til að fara ofan í saumanna á málinu. Það sé hins vegar Landspítalans að svara fyrir skipulag starfseminnar. Framkvæmdastjórar hjá Landspítalanum segja of fá gjörgæslurými miðað við íbúafjölda, en rúmum var fækkað í sumar vegna sumarfría starfsfólks.

Í opnu bréfi til stjórnmálamanna spyr Reynir Guðmundsson, sem liggur á hjarta- og lungnadeild Landspítalans, heilbrigðisráðherra hvernig hún ætli að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Hún sé þannig að sjúklingar komast ekki í nauðsynlegar aðgerðir vegna þess skortur er á sjúkrarúmum auk þess sem ekki eru nógu margir sérhæfðir gjörgæsluhjúkrunarfræðingar í vinnu til að sinna sjúklingum eftir aðgerðir.

Í lok bréfsins óskar Reynir eftir því að heilbrigðisráðherra fari vel yfir þá alvarlegu stöðu sem upp sé komin og spyr hana einnig hvernig eigi að tryggja öryggi fólks sem bíður eftir aðgerðum.

Landspítalinn ber ábyrgð á skipulagi starfseminnar

Í samtali við mbl.is segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra meðal annars að bréfið gefi tilefni til að fara ofan í saumanna á málinu.

„Með þessu bréfi hefur athygli stjórnvalda verið vakin á stöðunni og gefur tilefni til að fara ofan í saumanna á málinu. Svaranna er hins vegar að leita hjá Landspítalanum sjálfum sem annast og ber ábyrgð hjá á skipulagi starfseminnar þar,“ segir heilbrigðisráðherra.

Skortur er á rúmum og hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum við Hringbraut.
Skortur er á rúmum og hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum við Hringbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Hvorki náðist í Pál Matthíasson forstjóra Landspítalans né Önnu Sigrúnu Baldursdóttur aðstoðarmann hans við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Mbl.is náði hins vegar tali af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra flæðisviðs Landspítala og staðgengli Páls Matthíassonar forstjóra og Vigdísi Hallgrímsdóttur, framkvæmdarstjóra aðgerðasviðs Landspítala en gjörgæsludeildirnar tilheyra því sviði

Rúmum fækkað til að gefa starfsfólki frí

„Það er rétt að það hefur þurft að fresta aðgerðum vegna skorts á gjörgæslurúmum fyrst og fremst og skorts á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum sem vinna á gjörgæslu,“ segir Guðlaug.

Spurðar hvernig standi á því að það sé skortur á rúmum og sérhæfðum hjúkrunarfræðingum þá tekur Vigdís orðið:

„Það stendur fyrst og fremst á því núna í sumar að við þurfum að draga aðeins saman starfsemina og við fækkum rúmum á gjörgæsludeildunum til þess að geta gefið hjúkrunarfræðingum og öðru sérhæfðu starfsfólki frí.“

„Við höfum haft sjö rúm opin á gjörgæslunni á Hringbraut en þau eru sex núna yfir sumarið. Það hefur auðvitað áhrif á flæðið.“

Húsnæðið gæti rýmt 16-20 gjörgæslurúm

Þær bæta við að á gjörgæslunni í Fossvogi séu alla jafna sex gjörgæslurúm opin og því séu þau alls þrettán undir eðlilegum kringumstæðum. Það séu of fá gjörgæslurými miðað við íbúafjölda ef miðað er við löndin í kringum okkur.

En af hverju eru þeim þá ekki fjölgað?

„Þetta er milljón dollara spurningin. Við erum að glíma við mjög mikinn skort á hjúkrunarfræðingum fyrir það fyrsta og það er náttúrulega eitthvað sem hefur verið mönnum ljóst í mjög langan tíma. Skortur á hjúkrunarfræðingum er stóralvarlegt mál í heilbrigðisþjónustunni og það er í fyrsta lagi þar sem vandinn liggur,“ segir Guðlaug.

„Húsnæðislega séð höfum við svigrúm til að fjölga þeim eitthvað. Við gætum verið með kannski 16-18 gjörgæslurúm í dag miðað við húsnæði,“ skýtur Vigdís inn í.

Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdarstjóri aðgerðasviðs Landspítalans og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri …
Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdarstjóri aðgerðasviðs Landspítalans og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans og staðgengill forstjóra. Samsett mynd

Ekki tekið tillit til fjölgunar ferðamanna

Er þetta þá spurning um fjármagn?

„Til að opna fleiri rúm þá þarftu fleiri hjúkrunarfræðinga. Gjörgæsla er þannig að þú þarft í rauninni einn hjúkrunarfræðing á hvern sjúkling allan sólarhringinn, jafnvel tvo á veikustu sjúklingana. Þetta eru það mikið veikir sjúklingar,“ útskýrir Vigdís.

Guðlaug bætir því við að fjármagn sé að sjálfsögðu nauðsynlegt til að fjölga hjúkrunarfræðingum og að deildir Landspítala séu nú þegar reknar á mikilli yfirvinnu.

Í bréfi sínu segir Reynir að samkvæmt hans heimildum sé ekki tekið tillit til fjölda ferðamanna sem er í landinu hverju sinni. Þær Guðlaug og Vigdís segja þetta rétt og að fjöldi rúma á gjörgæslunni hefði ekkert aukist síðustu ár í takt við aukinn fjölda ferðamanna.

„Það hefur ekki gerst en það hefði svo sannarlega þurft að gera það,“ bætir Guðlaug við að lokum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka