„Var það bara sýndarmennska?“

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Svona röksemdir ganga nú ekki,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann bregst við þeim ummælum Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, í blaði dagsins að ekkert tilefni sé til þess að boða til atkvæðagreiðslu innan flokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins og að engin fordæmi séu fyrir því að heimild til slíkrar atkvæðagreiðslu í skipulagsreglum hans sé beitt.

Styrmir vakti athygli á umræddri heimild um helgina og hvatti til þess að henni yrði beitt, en samkvæmt henni ber miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að boða til atkvæðagreiðslu um mál ef að minnsta kosti 5.000 flokksbundnir félagsmenn fara fram á það, þar af alla vega 300 úr hverju kjördæmi. Taldi Styrmir einboðið að safnað yrði undirskriftum í þeim efnum í sumar.

Rök Birgis gegn slíkri undirskriftasöfnun til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu um orkupakkann koma Styrmi að hans sögn á óvart í ljósi þess að Birgir sé að hans mati einhver besti greinandi á íslensk stjórnmál sem hann hafi kynnst. „Getur verið að þetta séu þau rök, sem forystusveit Sjálfstæðisflokksins ætli að nota gegn því að slík undirskriftasöfnun fari fram?!“ Spyr Styrmir enn fremur hvers vegna heimildin hafi verið sett inn í skipulagsreglurnar.

„Var það bara sýndarmennska?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert