Olíubíllinn sem valt skammt vestan Grjótár á Öxnadalsheiði rétt fyrir hádegi var á vegum Olíudreifingar ehf. Þegar bíllinn lagði af stað voru 30.000 lítrar af olíu í tönkunum. Ekki liggur fyrir hve mikið af olíu var um borð þegar bíllinn valt en samkvæmt fólki á vettvangi varð strax töluverður leki.
Ökumaðurinn var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til nánari skoðunar. Hann var einn um borð og slasaðist alvarlega þegar bíllinn valt.
Öryggisfulltrúi á vegum Olíudreifingar er lagður af stað úr Reykjavík á vettvang til að hafa umsjón með aðgerðum í samstarfi við slökkviliðið á svæðinu. „Það er strax farið í að kanna aðstæður og hindra það sem hindra má og hreinsa það sem þegar hefur lekið,“ segir Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri Olíudreifingar í samtali við mbl.is.
Hann kveðst ekki þekkja hve mikið af olíu kunni að hafa verið um borð í bílnum, en hann hafi lagt af stað með 30.000 lítra. Það komi í ljós á vettvangi en maður frá Olíudreifingu sé þegar lagður af stað.
Ekki fengust upplýsingar um það hvers kyns olía var á bílnum en hitt liggur fyrir, að um ljósa olíu var að ræða. Þar koma nokkrar tegundir til greina.