Forsætisráðherra hefur skipað Ásgeir Jónsson í embætti seðlabankastjóra. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Ásgeir tekur við starfinu af Má Guðmundssyni 20. ágúst næstkomandi.
Sextán sóttu um starfið, en síðar drógu tveir umsókn sína til baka, þeirra á meðal Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, en hann gerði athugasemdir við vinnubrögð hæfnisnefndarinnar.
Hæfnisnefnd úrskurðaði síðar fjóra umsækjendur, Ásgeir, Arnór Sighvatsson, Gylfa Magnússon og Jón Daníelsson mjög vel hæfa til að gegna embættinu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði þá, auk þeirra fimm umsækjenda sem metnir voru vel hæfir, á fund sinn og lagi fyrir þá spurningar um reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi, breytingar á Seðlabankanum, verkefni bankans og stjórntæki auk stöðu efnahagsmála og samspil við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins.
Var það mat forsætisráðherra að Ásgeir væri hæfastur til að gegna embættinu.
Ásgeir lauk doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið. Fjallaði doktorsritgerð Ásgeirs um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Ásgeir hefir starfað við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, síðast sem dósent. Þá hefur hann gegnt stöðu deildarforseta frá 2015. Samhliða störfum í Háskólanum hefur hann verið efnahagsráðgjafi Virðingar og Gamma og gegnt formennsku í starfshópi um endurskoðun peningastefnunnar. Ásgeir var aðalhagfræðingur Kaupþings, og síðar Arion banka, á árunum 2004-2011.
Fréttin hefur verið uppfærð