Flugi frá Amsterdam aflýst

Allt flug frá Schiphol-flugvelli lá niðri í eftirmiðdaginn vegna bilunar …
Allt flug frá Schiphol-flugvelli lá niðri í eftirmiðdaginn vegna bilunar í eldsneytisbúnaði vallarins. AFP

Tveimur flugferðum Icelandair og Transavia frá Amsterdam til Keflavíkur í dag hefur verið aflýst. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við mbl.is

Á vef breska blaðsins Mirror kemur fram að ástæðan sé bilun í eldsneytisbúnaði á flugvellinum, sem geri það að verkum að ekki sé hægt að fylla á eldsneytistanka véla á vellinum. Hefur því tugum flugferða frá vellinum verið aflýst í dag.

Þrjár ferðir voru fyrirhugaðar frá Amsterdam til Keflavíkur seinni partinn í dag. Flugi Icelandair, FI 501, frá Schiphol-flugvelli sem til stóð að lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 15:10 var aflýst og sömuleiðis flugi hollenska flugfélagsins Transavia, HV6887, sem átti að lenda 17:40.

Á Twitter-síðu Schiphol-flugvallar kemur fram að búið sé að laga eldsneytisbúnaðinn og eru flugsamgöngur að komast í eðlilegt horf á ný.

Þriðja Íslandsfluginu, flugi Icelandair sem átti að fara í loftið um klukkan hálffjögur að íslenskum tíma, var seinkað en þegar fréttin er skrifuð, um klukkan átta, eru farþegar að ganga um borð og er ráðgert að vélin lendi í Keflavík stuttu fyrir ellefu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka