Lítil hætta á sprengingu í bílveltu

Verið var að flytja 30.000 lítra af skipagasolíu frá Akureyri …
Verið var að flytja 30.000 lítra af skipagasolíu frá Akureyri á Sauðárkrók þegar olíuflutningabíllinn valt. Ekki skapaðist hætta á sprengingu. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Olíuflutningabíll sem valt vestan við Grjótá á Öxnadalsheiði um hádegisbil í dag hafði lagt af stað frá Akureyri í morgun og var á leið til Sauðárkróks með 30.000 lítra af skipagasolíu. Ökumaður bílsins, sem var reyndur starfsmaður Olíudreifingar, liggur nú á Sjúkrahúsi Akureyrar og líðan hans er eftir atvikum.

Að sögn framkvæmdastjóra Olíudreifingar, Harðar Gunnarssonar, var lítil sem engin hætta á að sprenging yrði við þessar aðstæður. „Það þarf mjög mikið að koma til svo að olía af þessum toga verði eldfim,“ segir hann við mbl.is.

Hann segir að viðbrögð við slysinu séu eftir viðbragðsáætlunum. „Við byrjum á að huga að manninum, síðan gætum við umhverfisins og pössum svo að ganga vel frá vettvangi. Það munum við gera,“ segir hann.

Að hans sögn eru 5-6 starfsmenn Olíudreifingar þegar á vettvangi. Bíll var sendur frá Akureyri um leið og slysið varð og hóf hann að dæla olíu úr olíutönkum bílsins, svo hún læki ekki út í umhverfið úr götum sem urðu á tönkunum í veltunni. Strax tókst að koma í veg fyrir að olía læki út í vatn á svæðinu. Fleiri menn eru á leiðinni á vettvang.

Aðgerðirnar eru í samstarfi við Slökkviliðið á Akureyri, sem er með fyrstu viðbrögð á vettvangi sem þessum. Svo taka sérfræðingar á vegum Olíudreifingar við. „Það þarf síðan sérkunnáttu þegar komið er að svona vettvangi. Það þarf að geta opnað lokuna og náð eldsneytinu út úr tækinu. Við erum með sérstakt viðbragðsteymi í samvinnu við Umhverfisstofnun og höfum tæki, tól og starfsmenn sem geta brugðist við svona aðstæðum,“ segir Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert