Tæplega helmingur rekstraraðila í miðborg Reykjavíkur er mjög andvígur göngugötum allt árið og 62% eru þeim ýmist mjög eða frekar andvíg, samkvæmt könnun sem Zenter framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar í maímánuði.
29,9% rekstraraðila eru mjög eða frekar hlynnt göngugötum í miðborg Reykjavíkur allt árið, en alls bárust svör frá 191 rekstraraðila. Frá þessu var skýrt á mbl.is í gær.
Zenter framkvæmdi sambærilega könnun meðal viðhorfshóps síns, 1.800 einstaklinga 18 ára og eldri búsettra á höfuðborgarsvæðinu. Tæplega helmingur svarenda, sem voru 923, var mjög eða frekar hlynntur göngugötum í miðborg Reykjavíkur allt árið, en 32,7% voru því mjög eða frekar andvíg. Íbúar í póstnúmeri 101 voru líklegastir til að vera hlynntir göngugötum allt árið, sem og þeir sem nýttu sér þjónustu í miðborginni vikulega eða oftar. Þeir sem aldrei kváðust nýta sér þjónustu í miðborginni voru andvígastir göngugötum allt árið.