Nýi Herjólfur hefur siglingar síðdegis á morgun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir að fyrsta ferð nýs Herjólfs verði frá Vestmannaeyjum klukkan 19:30. Aðstaða í Vestmannaeyjahöfn hefur verið bætt svo ferjan geti hafið siglingar án þess að tekin sé áhætta með skemmdir á ferjunni.
„Aðstaðan í Vestmannaeyjahöfn verður svo bætt enn frekar í haust með uppsetningu enn öflugri „fendera“ sem eiga ekki bara að takmarka skemmdir eða annað lask á nýju ferjunni heldur mun líka auðvelda stjórnendum skipsins að leggja að og frá. Það gæti því einnig stytt þann tíma sem tekur að leggja að. Reiknað er með að það verk verði unnið á haustmánuðum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.