Félagar Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ hafa safnað undirskriftum þar skorað er á sveitastjórnir að greiða kjarasamningslausum starfsmönnum Eflingar 105.000 króna eingreiðslu, líkt og gert hefur verið í Reykjavík og hjá ríkinu.
Eingreiðslunni er ætlað að færa starfsmönnunum sömu kjarabætur og félagsmenn á almennum markaði fengu eftir að samningar náðust milli Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga, þeirra á meðal Eflingar, í apríl.
Í samtali við mbl.is segir Valgerður Árnadóttir, sviðsstjóri félagssviðs Eflingar, að um helmingur félagsmanna Eflingar hjá Kópavogsbæ, og 90% hjá Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ hafi skrifað undir áskorunina sem sé runnin undan rifjum trúnaðarmanna á vinnustöðum bæjanna. Undirskriftasöfnunin hafi aðeins staðið yfir í tvo og hálfan dag, og mikið sé um sumarfrí um þessar mundir og því hafi ekki náðst í alla starfsmenn. Nefnir hún til dæmis að bróðurpartur Eflingarfélaga í Kópavogi starfi hjá leikskólum, sem flestir eru lokaðir í júlí.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint þeim tilmælum til sveitarfélaga, sem sambandið fer með samningsumboð fyrir, að þau skuli ekki greiða aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins, en Efling er eitt þeirra, eingreiðsluna. Sambandið fer þó ekki með samningsumboð fyrir Reykjavíkurborg og er hún því ekki bundin af tilmælum þess.