Drulla, bjórleikar og pönktónlist

Flugeldasýningin á Þjóðhátíð í Eyjum er jafnan tilkomumikið sjónarspil. Hún …
Flugeldasýningin á Þjóðhátíð í Eyjum er jafnan tilkomumikið sjónarspil. Hún verður á sínum stað í ár. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Að vanda verður nóg um að vera um verslunarmannahelgina. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður væntanlega sú fjölmennasta eins og áður en Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV, íþróttafélagsins sem sér um Þjóðhátíð, segir sölu miða hafa gengið svipað vel og undanfarin ár.

Undirbúningur flestra hátíða er nú þegar hafinn og þar er Þjóðhátíð að sjálfsögðu ekki undanskilin.

„Undirbúningurinn gengur virkilega vel og þetta er allt saman á áætlun,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar.

Hann gerir ráð fyrir að jafn margir mæti á hátíðina í ár og árið 2017 þegar gestir voru örlítið færri en í fyrra.

Jónas segir nefndina fulla tilhlökkunar yfir komandi hátíð.

„Við erum bara virkilega spennt og þetta er allt að smella.“

Kort/mbl.is

Takmarkaðar breytingar verða á dagskrá enda lítið vit í að breyta því sem virkar. Jónas segir helstu breytinguna þá að Laddi ætli að troða upp á milli atriða á laugardagskvöldinu, vonandi við góðar undirtektir.

Boat Tours munu sigla á milli lands og Eyja ásamt gamla Herjólfi svo fleiri komist til Eyja en ella. Óljóst er hvort nýr Herjólfur verður tekinn í gagnið fyrir verslunarmannahelgi. Hörður segir það þó ekki koma að sök.

Börnin tekin með í drulluna

Í Bolungarvík verður Evrópumeistaramótið í mýrarbolta haldið um verslunarmannahelgina en mótið hefur ýmist verið haldið í Bolungarvík eða á Ísafirði síðan 2003.

Þar veltast ungir sem aldnir um í drullusvaði og keppa um meistaratitilinn.

Að sögn Charlottu Rósar Sigmundsdóttur, „drullusokks“ hátíðarinnar, nokkurs konar framkvæmdastjóra í stígvélum, verður enn meira um að vera á hátíðinni í ár en áður og þétt dagskrá alla helgina. Krakka- og unglingamót verður í fyrsta skipti haldið samhliða mýrarboltanum, þrátt fyrir að hátíðin sé ekki fjölskylduhátíð, eins og Charlotta tekur skýrt fram.

„Það er stundum erfitt fyrir börn að fylgjast með foreldrum sínum veltast um í drullunni og mega ekki vera með,“ segir Charlotta.

Þegar Charlotta, sem hreppti Evrópumeistaratitilinn árið 2017, er spurð hvað sé skemmtilegast við mýrarboltann þarf hún að hugsa sig aðeins um.

„Það er kannski það að festast í drullunni, týna skónum þínum og fá rauða spjaldið,“ segir hún og hlær. „Svo er það náttúrlega þessi óheflaða stemning sem myndast.“

Keppendur Evrópumeistaramótsins í mýrarbolta verða vægast sagt skítugir við athæfið. …
Keppendur Evrópumeistaramótsins í mýrarbolta verða vægast sagt skítugir við athæfið. Búist er við sex til átta hundruð manns vestur í ár. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ævintýri og jaðaríþróttir

Ef útihátíðaglaðir ætla norður á land er þeim helst bent á að fara til Akureyrar. Þar er fjölskylduhátíðin Ein með öllu haldin ásamt íslensku sumarleikunum en þar er keppt í ýmsum íþróttum, bæði þeim sem eru yst á jaðrinum og þeim vinsælli.

Ennþá norðar verður að finna rólegri en þó býsna fjöruga hátíð eða ævintýri réttara sagt; Síldarævintýri á Siglufirði. Þar mun heyrast undurfögur tónlist og gestum gefst kostur á að berja augum fornbíla og myndlist. Þar verður einnig blásið til hinna einstöku bjórleika þar sem gestum býðst að spreyta sig á ýmsum þrautum.

Hið árlega unglingalandsmót verður nú haldið á Höfn í Hornafirði. Þar hafa ungmenni á aldrinum 11-18 tækifæri á að keppa í íþróttagreinum, sama hvort þau eru skráð í íþróttafélag eður ei. Á kvöldin verður svo boðið upp á kvöldvökur með vinsælu tónlistarfólki. Athugið að mótsgjald er 7.500 krónur en ekki 7.000 eins og stendur á korti í þessari grein.

50 hljómsveitir á ættarmóti

Fyrir þá sem kjósa að sleppa við umferðaröngþveiti helgarinnar og vilja dvelja í þægindum stórborgarinnar verða tónleikar í miðbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið úti á Granda. Það er tónlistarhátíðin Innipúkinn sem um ræðir og hefur hún verið haldin síðan 2002.

Á Norðanpaunki, árlegu ættarmóti pönkara á Laugarbakka, munu hvorki meira né minna en 50 hljómsveitir stíga á pall og hlýtur það að teljast nokkuð vel útilátin dagskrá. Til að fara á ættarmótið þarf að skrá sig í ættina en árlegt félagsgjald er sjö þúsund krónur.

Fyrir þau sem vilja ekki sjá vímugjafa um þessa helgi, sem gjarnan einkennist af því að fólk fær sér í glas, er kjörið að skella sér í Vatnaskóg á Sæludaga KFUM og KFUK eða á Kotmót Hvítasunnukirkjunnar í Fljótshlíð.

Neistaflug verður á sínum stað í Neskaupstað en helgin þar verður smekkfull af vinsælli tónlist, rappi, poppi og ballöðum.

Á Flúðum verður svo að finna fjölskylduhátíð þar sem brenna verður, brekkusöngur, Leikhópurinn Lotta og fleira sem börn og fullorðnir kunna að hafa gaman af.

Fyrir valkvíðna má líta á kortið hér að ofan til þess að fræðast um hátíðir verslunarmannahelgarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert