Kannast ekki við fullyrðingar Ballarin

Michele Ballarin sagði flugmálayfirvöld í Washington vera „ótrúlega spennt“ fyrir …
Michele Ballarin sagði flugmálayfirvöld í Washington vera „ótrúlega spennt“ fyrir komu WOW Air. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Dulles-flugvallar í Washington kannast ekki við fullyrðingar bandarísku athafnakonunnar Michele Ballarin þess efnis að WOW Air verði eftir endurreisn sína fyrsta evrópska flugfélagið til að hafa höfuðstöðvar á flugvellinum.

Ferðavefurinn Túristi greinir frá þessu og segir viðmælendur sína, þar á meðal einstaklinga sem þekki vel til flugreksturs, vera á einu máli um að yfirlýsingar Ballarin séu ekki trúverðugar.

Ballarin var í viðtali í Viðskiptamogganum í gær og opinberaði þar áætlanir sínar um endurreisn WOW air í gegnum félagið US Aerospace Associates sem hún segir hafa bækistöðvar á flugvellinum, auk þess sem hún greindi frá fundum sínum með flugmálayfirvöldum í Washington.

Sagði Ballarin flugmálayfirvöld í Washington vera „ótrúlega spennt“ fyrir komu WOW Air.

Þessi lýsing er þó ekki í takt við þau svör sem Túristi segist hafa fengið hjá fjölmiðlafulltrúum Dulles. „Þar segir að flugmálayfirvöld Washington-svæðisins þekki ekki til US Aerospace Associates eða félaga sem tengjast frú Ballarin. Í svarinu segir jafnframt að forsvarsfólk flugfélaga hafi reglulega samband við yfirvöld og lýsi yfir áhuga á að hefja flug til borgarinnar. Á þessari stundu liggi hins vegar ekkert fyrir um komu nýrra flugfélaga eða nýrra flugleiða til og frá Washington Dulles,“ segir í frétt Túrista.

Viðmælendur Túrista telji yfirlýsingar Ballerin ekki trúverðugar. „Sumir fara heldur ekki leynt með vonbrigði sín með að sú sem fer fyrir endurreisn fyrirtækis, sem skilgreint var sem kerfislega mikilvægt af íslenskum stjórnvöldum, skuli ekki þekkja betur til mála en raun ber vitni. Það skíni í raun í gegn hversu litla reynslu hún hafi af farþegaflugi nema sem farþegi,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert