Nasdaq í samstarf við Hinsegin daga

Nasdaq og Hinsegin dagar eru komin í samstarf.
Nasdaq og Hinsegin dagar eru komin í samstarf. Ljósmynd/Aðsend

Nasdaq á Íslandi hefur bæst í hóp samstarfsaðila Hinsegin daga og munu þau standa saman að tveimur viðburðum.

Í upphafi Hinsegin daga, þann 8. ágúst verður viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum beggja aðila boðið að taka þátt í opnunarbjöllu í Kauphöllinni og síðan verður opinn hádegisverðarfundur á Þjóðminjasafninu 12. ágúst þar sem málefni hinsegin fólks í atvinnulífinu verða rædd frá ýmsum sjónarhornum.

Nasdaq, sem er alþjóðlegt fyrirtæki sem starfar á 50 mörkuðum um allan heim, var í mars síðastliðnum verðlaunað af Human Rights Watch fyrir að vera besti vinnustaðurinn fyrir hinsegin fólk, en réttindi og málefni hinsegin fólks eru hluti af jafnréttisstefnu fyrirtækisins.

„Við erum gríðarlega stolt af þessu samstarfi með Hinsegin dögum á 20 ára afmæli þeirra.“ segir Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, í tilkynningu. „Í þeim fyrirtækjum sem ná hvað bestum árangri er byggð upp menning gagnkvæmrar virðingar og jafnréttis, þar sem allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund eða kynhneigð er verndað gegn mismunun; það upplifir sig öruggt í starfi, líður vel og finnur að það geti náð árangri innan fyrirtækisins,“ segir hann.

„Okkar markmið er að vekja atvinnulífið til vitundar um málefni hinsegin fólks á vinnumarkaði, að hvetja fyrirtæki til setja á dagskrá umræðu um stöðuna hjá sér og hvernig megi bæta hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert