Óvenjumikið rennsli er í Jökulsá á Fjöllum vegna hlýinda á norðanverðu hálendinu undanfarna daga. Vegna vatnavaxta þar hefur veginum um Gæsavatnaleið verið lokað.
Í skýringu á vef Veðurstofunnar, þar sem greint er frá málinu, segir að hlutfallstala rennslis sé 93% og um sé að ræða mjög mikið rennsli.
Grunur leikur á að jarðhitavatnsleki sé að berast í Múlakvísl en miðað við árstíma er rafleiðni há og vatnsmagn meira en venja er. Ekki er þó talið að hlaup sé hafið enn.
Vaktmenn Veðurstofunnar fylgjast grannt með gangi mála.
Mikið magn vatns hefur safnast saman í sigkötlum Mýrdalsjökuls undanfarnar vikur og mælist rafleiðni í Múlakvísl há.
Búist er við stærsta hlaupi í Múlakvísl í átta ár, eða síðan 2011 þegar jökulhlaupið tók með sér brúna yfir Múlakvísl og þjóðvegurinn rofnaði.