Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Samkeppniseftirlitinu (SE) erindi og farið fram á að tekin verði til skoðunar háttsemi afurðastöðva sem leitt hafi til fyrirsjáanlegs skorts á lambahryggjum í verslunum og viðbrögð stjórnvalda við fyrirsjáanlegum skorti.
FA vísar til þess að yfirvofandi skortur eigi ekki rætur að rekja til óvenju mikillar neyslu á lambakjöti hérlendis eða framleiðslubrests, heldur til stórtæks útflutnings afurðastöðva á lambakjöti til útlanda á verði sem er mun lægra en íslenskum verslunum stendur til boða.
Vísað er til þess að yfirvofandi skortur hafi verið ljós í marga mánuði enda hafi atvinnuvegaráðuneytinu borist beiðni um tímabundinn innflutningskvóta í apríl á þessu ári. ekki hafi verið aðhafst fyrr en 23. júlí sl.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir skortinn koma á versta tíma og fólk sjái í hendi sér að verð á kjöti hafi hækkað. Hann gerir fastlega ráð fyrir að SE taki erindi FA til skoðunar enda hafi matvælamarkaðurinn verið til skoðunar hjá SE. Ólafur segir regluverkið gallað.
„Allt er þetta auðvitað dálítið öfugsnúið og langt frá einhverjum frjálsum markaði. Landbúnaðurinn nýtur auðvitað ríkisstyrkja til að framleiða það kjöt sem þarna um ræðir. Það er síðan selt til útlanda á verði sem er langt undir því sem íslenskum verslunum stendur til boða. Ég hef rætt við innlend sölu- og dreifingarfyrirtæki sem hafa falast eftir þessu kjöti á sama verði og það er selt á til útlanda og ekki fengið,“ segir Ólafur. Með þessu sé gengið á framboðið á innanlandsmarkaði og skortur búinn til sem bitni á neytendum.
„Á sama tíma standa lög og reglur í vegi fyrir innflutningi af því það eru lagðir á hann svo gríðarlega háir tollar. Neytendur eru þarna í býsna slæmri stöðu,“ segir hann.
Meðal þess sem FA beiðist er að athugað verði hvort afurðastöðvarnar hafi haft með sér samráð. Spurður hvort FA telji að svo sé kveðst hann ekki geta fullyrt um það. „Þetta lítur þannig út að menn séu að flytja út til að hækka verðið á innanlandsmarkaði, án þess að hægt sé að bregðast við með því að flytja inn. Það væri hægt væri þetta einhver önnur innlend framleiðsla sem ekki félli undir landbúnaðarkerfið,“ segir Ólafur.
Ólafur setur sömuleiðis spurningamerki við það hvernig atvinnuvegaráðuneytið beitir þeim aðferðum sem það hefur.
„Stjórnvöld eiga þann kost að gefa út tímabundinn innflutningskvóta á lægri tolli til að mæta þessum innanlands skorti. Að okkar mati er bæði regluverkið gallað og eins hvernig atvinnuvegaráðuneytið beitir þeim aðferðum sem það hefur,” segir Ólafur, en hann segir að innlendir framleiðendur séu einfaldlega spurðir hvort þeir eigi nóg og ef þeir segi „já“, þá sé það ekki sannreynt frekar.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist, að ráðuneytið komist að því að það sé enginn skortur en síðan komi í ljós að það sé bullandi skortur. Það er hægt að nefna nautakjöt, kjúklingakjöt, blóm, kartöflur o.fl. Þetta kemur upp í mörgum tilfellum og er meingallað að okkar mati,“ segir Ólafur.
Spurður hvaða leiðir séu færar til að bæta úr þessum göllum segir hann að best væri að lækka tolla á búvörum líkt og samráðsvettvangur um aukna hagsæld lagði til. Hann vill afnema tolla á hvítu kjöti og lækka þá á öðrum vörum. „Hefðbundin innlend framleiðsla hefði þá nokkra vernd, en innflutningur væri samkeppnisfærari,“ segir Ólafur. „Þetta stúss með tollkvóta sem eru boðnir upp og skortkvóta sem eru háðir duttlungum og geðþótta stjórnvalda að því er virðist, er kerfi sem menn lenda stanslaust í ógöngum með þó þeir reyni að lappa upp á það,“ segir hann.