Upplýstu Airbus eftir alvarlegt flugatvik

Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að þegar hafi verið …
Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að þegar hafi verið gripið til ráðstafana vegna tilviksins og að upplýsingum hafi verið komið áleiðis til flugvéla- og hreyflaframleiðanda. mbl.is/​Hari

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komið á framfæri upplýsingum til flugvélaframleiðandans Airbus og hreyflaframleiðandans Safran í tengslum við alvarlegt flugatvik sem varð þegar flugvél WOW air á leið til Baltimore þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli. Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði rannsóknarnefndar flugslysa, segir rannsóknina hafa „leitt ákveðna hluti í ljós“.

Vélarbilun kom upp í flugvélinni, en vart varð við olíuleka í hreyfli vélarinnar sem varð til þess að slökkva þurfti á hreyflinum. 35 mínútum síðar var vélinni lent á Keflavíkurflugvelli. 

Atvikið reyndist alvarlegra eftir skoðun en búist var við í upphafi, en flugfréttvefurinn The Aviati­on Her­ald greindi frá því að flugmenn vél­ar­inn­ar hefðu þurft að slökkva á öðrum hreyfl­in­um fljót­lega eft­ir flug­tak þegar upp komst um olíulek­ann. Var ol­íu­magn á hreyfl­in­um þá komið niður fyr­ir viðmiðun­ar­mörk. Við skoðun kom svipaður leki upp á hinum hreyfl­in­um, en var enn und­ir mörk­um og því hægt að hafa hreyf­il­inn í gangi.

Á mbl.is var haft eftir upp­lýs­inga­full­trúa WOW air að vél­ar­bil­un­in væri smá­vægi­leg, en hættu­stigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli og voru tug­ir björg­un­ar­sveit­ar­manna á Suður­nesj­um og af höfuðborg­ar­svæðinu í viðbragðsstöðu. Hættu­stigi var af­lýst um leið og flug­vél­inni var lent heilu á höldnu.

Frakkar og Slóvenar höfðu aðkomu

Ragnar segir málið enn í rannsókn og að hann geti lítið tjáð sig um það. Við rannsóknina hafi rannsóknarnefndin m.a. verið í samskiptum við systurnefndir sínar í Frakklandi og Slóveníu. Þá hafi flugvélaframleiðandinn Airbus og hreyflaframleiðandinn Safran einnig komið að rannsókninni.

„Flugvélin var framleidd í Frakklandi og rannsóknarnefndin hefur aðkomu að málinu sem nefnd framleiðsluríkis. Það er í raun og veru eðlilegt ferli. Nefndin hjálpaði okkur að koma á samskiptum við framleiðendur í tengslum við upplýsingaöflun og rannsóknina almennt. Þeir aðstoðuðu m.a. við aflestur flugritagagna,“ segir Ragnar. 

„Slóvenía kom að rannsókninni vegna þess að einn þáttur málsins tengist inn í það ríki,“ segir Ragnar, en viðhaldsstöð sem hafði unnið við vél WOW air er staðsett í Slóveníu. „Við vorum í raun bara að afla gagna frá síðasta viðhaldi. Nefndin kom á samskiptum við aðilann og aðstoðaði, segir hann. 

Rannsóknin „leitt ákveðna hluti í ljós“

Erfitt er að segja til um hvenær skýrsla um rannsóknina verði gerð opinber, en annir hafa verið hjá nefndinni í sumar. Ragnar segir að áður en skýrsla um flugslys sé gerð opinber sé nauðsynlegum upplýsingum komið áleiðis. Slíkt mæti ekki afgangi.

„Þetta er alvarlegt flugatvik. Það er eðlilegt að þetta taki þetta langan tíma. Það er mjög margt sem þegar hefur verið gert, en við erum ekki tilbúnir að gera það opinbert á þessari stundu. Rannsóknin hefur leitt ákveðna hluti í ljós sem ég get ekki tjáð mig um á þessu stigi,“ segir Ragnar.

„Ein af ástæðunum fyrir því að erlendar nefndir koma að málunum er til þess að koma upplýsingum áleiðis sem þarf að taka tillit til ef það þarf að gera úrbætur. Það er ekki beðið með það,“ segir Ragnar, en rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komið slíkum upplýsingum á framfæri við umrædda framleiðendur að sögn Ragnars sem kveðst þó ekki vilja tjá sig þær um efnislega. 

„Ég get ekki tjáð mig um það hverjar þær eru áður en skýrsla verður gerð opinber,“ segir Ragnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert