Sigurður H. Dagsson, fyrrverandi kennari og markmaður, lést í gær á Landakoti á 75. aldursári. Hann fæddist í Keflavík 27. september 1944. Kjörforeldrar hans voru hjónin Dagur Hannesson járnsmiður og Sigríður Sigurðardóttir.
Sigurður lauk kennaraprófi 1966 og íþróttakennaraprófi 1967. Hann kenndi við Álftamýrarskóla 1967-69 og við FB frá 1979 og var þar deildarstjóri íþróttabrautar. Einnig starfaði hann fyrir Knattspyrnufélagið Val á Hlíðarenda um tíma og var í stjórn knattspyrnufélagsins Vals 1977-79.
Sigurður lék handknattleik og síðar knattspyrnu í mörg ár með Knattspyrnufélaginu Val sem markmaður. Hann var einn þekktasti íþróttamaður landsins á sínum tíma. T.d. var rætt um Sigurð sem „hálft liðið“ þegar Valur varð Íslandsmeistari sumarið 1966.
Hann stóð einnig í markinu þegar Valur mætti portúgalska stórliðinu Benfica á Laugardalsvelli 18. september 1968. Þá var slegið nýtt aðsóknarmet á vellinum og voru skráðir áhorfendur 18.243.
Sigurður í marki Vals var ein helsta hindrunin sem Portúgalarnir réðu ekki við. „Þetta var sannarlega erfiður leikur,“ sagði hann við Morgunblaðið eftir leik. „Annars átti ég von á því að þeir hittu betur, en skotin voru föst og snögg. Ég reiknaði með að þurfa að sækja boltann oft í netið í þessum leik, jafnvel 5-8 sinnum.“ Svo fór að Sigurður hélt markinu hreinu sem frægt er og leikurinn endaði 0:0. Hann lék einnig 18 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1966-77.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Ragnheiður Lárusdóttir Blöndal. Synir þeirra eru þeir Lárus, Dagur og Bjarki.