BA fækkar Íslandsflugi um 4 ferðir á viku

British Airways ætlar að fækka Íslandsflugi sínu um fjórar ferðir …
British Airways ætlar að fækka Íslandsflugi sínu um fjórar ferðir á viku. AFP

Breska flugfélagið British Airways mun fækka áætlunarflugi sínu til Íslands um fjórar ferðir á viku. Ferðavefurinn  Simple Flying greinir frá þessu og segir að þrátt fyrir gjaldþrot WOW air fyrr á árinu þá virðist samkeppnin við Icelandair vera meiri en svo að þörf sé á áður fyrirhuguðum áætlanaferðafjölda BA.

Heimildir mbl.is staðfesta að BA hafi ákveðið að fækka áætlunarflugi til Íslands frá og með 27. október. Mun flugfélagið þá vera með sjö ferðir á viku til og frá Íslandi, en fyrri áætlun gerði ráð fyrir 7-11 ferðum á viku þar sem fjöldi áætlunarferða BA rokkaði til milli vikna yfir vetrarmánuðina.

Ferðavefurinn Túristi greindi frá því í maí að British Airways ætlaði að fjölga áætlunarferðum hingað á sama tíma og EasyJet hefði fækkað ferðum sínum. BA virðist nú hafa látið af þeirri fyrirætlan.

Simple Flying segir samkeppnina við Icelandair væntanlega eiga hlut í máli varðandi ákvörðun BA. Áður en Boeing 737 Max 8 farþegaþoturnar voru kyrrsettar þá notaði Icelandair slíkar vélar í flugi sínu til London. Nú nýti flugfélagið hins vegar stærri flugvélar í flugið til London, frekar en að fella flugið niður og því kunni BA að finna fyrir minni eftirspurn eftir Íslandsflugi félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert