Eins hreyfils flugvél hlekktist á í lendingu á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum á sjötta tímanum í gær. Vélin snerist í lendingunni en við það hvolfdist hún og stöðvaðist á hvolfi. Flugmaður var einn um borð og er hann ómeiddur.
Frá þessu greinir lögreglan á Suðurlandi á Facebook-síðu sinni.
Flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa var gert viðvart og hefur sviðið nú málið á sinni könnu.
Klukkan 19:30 í gær lenti ökumaður á torfæruhjóli utan í girðingu meðfram vegi í Landeyjum og flækti fót í henni. Hann er alvarlega slasaður á fæti og var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.
Þá kemur einnig fram að 28 ökumenn voru í gær kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Þeir eru orðnir 2.356 slíkir það sem af er ári og er það met.
Þrír í sama bílnum voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti, tveir fyrir að nota ekki ökuritaskífu í ökurita bifreiða sem þeir óku og ökumaður 50 manna rútu reyndist með útrunnin ökuréttindi og var gert að hætta akstri.