Fordæma framgöngu þingmanna Pírata

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Hátt í 50 manns hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem sú atburðarrás sem átti sér stað á félagsfundi Pírata 15. júlí er fordæmd. Segir í yfirlýsingu við undirskriftarlistann að framkoma þeirra þingmanna Pírata og annars valdafólks innan flokksins sem fóru hörðum orðum um Birgittu Jónsdóttur, vera opinbera aðför sem sé bæði ámælisverð og engum til gagns. 

„Þingmenn Pírata og annað valdafólk innan flokksins sem tóku til máls á fundinum fóru offari gegn einum félagsmanni. Sú opinbera aðför, óháð því hvaða stöðu umræddur félagsmaður gegndi áður og hvað kann að hafa farið aðila á milli fyrr, er með öllu ólíðandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, sagði í samtali mbl.is í kjölfar fundarins að þingmenn Pírata voru sammála um að rétt væri að upplýsa fundarmenn á félagsfundi flokksins í síðustu viku um reynslu sína af samstarfi við Birgittu Jónsdóttur áður en greidd væru atkvæði um það hvort hún tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var á meðal þeirra sem fluttu ræðu á félagsfundinum og fór hann hörðum orðum um Birgittu sem er fyrrverandi þingmaður flokksins. 

Margir gera grein fyrir undirskrift sinni. „Ég valdi Pírata útaf Birgittu“, segir einn þeirra sem skrifar undir listann á meðan annar segir framkomu Helga Hrafns vera „ekkert annað en einelti og ofbeldi, og verður honum til ævarandi skammar.“

Þá segjast margir skilja rök þeirra þingmanna sem gagnrýnt hafa Birgittu, en að ákjósanlegra hefði verið að leysa úr ágreiningnum á annan og friðsamlegri hátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka