Metskráning á hjólreiðahátíð Greifans

Hjólreiðahátíð er í fullum gangi á Akureyri þessa dagana.
Hjólreiðahátíð er í fullum gangi á Akureyri þessa dagana. Ljósmynd/Aðsend

Það er metskráning í hverri keppni á árlegri hjólreiðahátíð Greifans á Akureyri nú dagana 24-28. júlí. Hjólreiðafélag Akureyrar sér um þennan viðburð eins og síðustu ár. Yfir 300 hjólreiðamenn munu keppa á átta mismunandi mótum.

Í gær hjóluðu 135 hjólreiðamenn frá Siglufirði til Akureyrar í Gangamóti Greifans. Í dag hófst klukkan fimm barna-, unglinga- og fullorðins XC-mót í Kjarnaskógi, þar sem byrjað var hjá nýja Grillhúsinu í Kjarnaskógi. 

Flestir hjólreiðamenn geta fundið eitthvað við sitt hæfi á dagskránni.
Flestir hjólreiðamenn geta fundið eitthvað við sitt hæfi á dagskránni. Ljósmynd/Aðsend

Það er þétt dagskrá alla helgina. Laugardagsmorgun er Enduro-mótið kl 10.00 frá Hlíðarfjalli og það endar niðri við flugvöll. Keppendur safnast svo saman í Nýja Grillhúsinu í Kjarnaskógi. Um kvöldið verða brekkusprettir bæði í karla- og kvennaflokki og að þeim loknum verður kirkjutröppubrun. 

Sunnudagsmorgun verður götuhjólamót á Goðanes- og Byko-svæðinu, segir í tilkynningu. Botninn er síðan sleginn í hátíðina með Íslandsmeistaramóti í Downhill í Hlíðarfjalli kl 13.00 á sunnudag. Farið verður upp með hjólin í Fjarkanum og geta áhorfendur komið og horft á úr stólalyftunni, í brautinni og uppi í Strýtuskála.

Á sunnudaginn verður haldið Íslandsmót í „downhill“-hjólreiðum.
Á sunnudaginn verður haldið Íslandsmót í „downhill“-hjólreiðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert