Þríþrautarkeppnin Ísland Extreme Triathlon á vegum Extreme Endurance Events fer fram á Snæfellsnesi á morgun. Samkvæmt vef keppninnar hafa 75 keppendur skráð sig til leiks, en þeir eru víðsvegar að úr heiminum. Tony Sapp, annar tveggja stofnenda Extreme Endurance Events, er staddur hér á landi, en hann stofnaði fyrirtækið ásamt félaga sínum Aaron Palaian. Þeir félagar hafa undanfarið unnið að skipulagningu þríþrautarinnar sem nú verður haldin hér á landi í fyrsta sinn.
„Við höfum skipulagt fjölda viðburða og síðastliðin þrjú ár höfum við t.d. staðið að Alaskaman-þríþrautinni sem um 500 manns hafa lokið við í hvert sinn,“ segir Tony í samtali við mbl.is, en einnig standa félagarnir að Alohaman-þríþrautinni sem haldin verður á Havaí í desember.
„Við vildum víkka út starfsemina til nýs og spennandi staðar og höfum unnið með fólki hér á landinu sem hefur hjálpað okkur að afla leyfa og skipuleggja þetta. Við Aaron ferðuðumst hingað síðasta haust til að finna keppninni stað og komast að því hvaða leiðir væru heppilegar,“ segir Tony, en þeir félagar komust fljótt að þeirri niðurstöðu að Ólafsvík og Snæfellsnes væri hið fullkomna umhverfi fyrir keppnina. Þeir vonast til þess að keppnin geti orðið að árlegum viðburði.
„Þegar við fórum í könnunarferð okkar um eyjuna horfðum við til fjölmargra hluta. Vegalengdar, náttúrufegurðar, mögulegra sund, hlaupa- og hjólaleiða. Við hrifumst af hugmyndinni um að Snæfellsnes sé Ísland í hnotskurn og hér getum við fangað kjarna landsins. Íþróttamennirnir fara um allt nesið,“ segir Tony.
Á innan við sólarhring munu keppendur synda þrjá kílómetra. Þá verða hjólaðir 180 kílómetrar og 42,2 kílómetrar hlaupnir. „Við byrjum á því að synda í Lárósi nærri Kirkjufelli. Síðan verður hjólað kringum Snæfellsnes og endað í Ólafsvík. Þá verður hlaupið yfir Snæfellsjökul og síðan aftur yfir til Ólafsvíkur þar sem keppnin endar í félagsheimilinu Klifi,“ segir Tony, en 75 keppendur eru skráðir til leiks.
„Við eigum von á því að 60-65 hefji keppni. Fjöldi þeirra sem lýkur keppni veltur á því hvaða áhrif veðrið hefur. Við vitum að veðurfar á Íslandi er oft ófyrirsjáanlegt,“ segir hann, en vindur mun vafalaust hafa áhrif. „Þar sem keppendurnir hjóla í kringum Snæfellsnes mega þeir eiga von á vindi úr öllum mögulegum áttum á leiðinni,“ segir Tony.
„Lokatími (e. cut-off) er klukkan ellefu annað kvöld og við vonum að allir ljúki keppni. Það veltur, sem fyrr sagði, á því hvernig veðurfarið verður og hvernig keppnin þróast. Við erum líka með lokatíma í sundþrautinni og hlaupinu,“ segir Tony.
Sex Íslendingar eru skráðir til keppni. Það eru þeir Pétur Pétursson, Geir Ómarsson, Putnoki Ferenc, Pétur Guðnason, Gunnar Birkir Gunnarsson og Konstantin Usachev. Flestir keppendanna eru frá Bandaríkjunum, um þrjátíu, en skarinn kemur þó frá um 35 löndum alls að sögn Tonys. „Þetta er mjög góð blanda fólks allstaðar að úr heiminum,“ segir hann.
Spurður hver þrautanna þriggja muni reynast erfiðust segir Tony að hlaupið og hjólreiðarnar verði erfið sökum veðráttu. Þá sé hlaupaleiðin erfið og upp í móti. Sundið gæti haft áhrif á einhverja keppendur, en sumir þeirra eru óvanir jafn köldu vatni og er á Íslandi. Tony segir að hitastigið nú sé um tólf gráður. Í dag hélt hópurinn í sundferð til þess að kynnast þeim aðstæðum og hver öðrum, en krafa er gerð um að keppendur verði klæddir blautbúningum.
Tony segir að sérstaklega vel hafi gengið að skipuleggja keppnina á Íslandi í samanburði við önnur lönd. „Við Aaron höfum unnið við að skipuleggja viðburði í að verða áratug. Reynsla okkar af skipulagningu á Íslandi er sú allra besta. Við höfum átt mjög gott samstarf við yfirvöld og fólk allt í kringum Snæfellsnes. Okkar fólk hér á Íslandi hefur tekið boltann hvað varðar fyrirspurnir til yfirvalda og leyfi frá landeigendum, t.d. til þess að fá að synda í ósnum,“ segir hann.
„Þetta er eins gott og það verður í sambandi við samskipti við hið opinbera, landeigendur og heimamenn,“ segir Tony.