Tímafrekt að bregðast við skarði WOW Air

Vél ALC sem Isavia og ALC deildu lengi um en …
Vél ALC sem Isavia og ALC deildu lengi um en er nú flogin úr landi. mbl.is/​Hari

Að öllum líkindum mun ekki nást í haust að fylla skarðið sem WOW Air skildi eftir sig á flugmarkaði hérlendis þegar flugfélagið fór í þrot fyrr á árinu, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

„WOW Air flutti um það bil 35% farþega um Keflavíkurflugvöll og var næststærsti viðskiptavinur okkar á vellinum. Það er því ljóst að gjaldþrot WOW hefur haft áhrif á reksturinn og skarð myndast á markaðnum, sérstaklega hvað varðar Ameríkuflug þar sem framboð hefur minnkað töluvert,“ segir Guðni.

Air Baltic flýgur allt árið

Einhver flugfélög hafa þó bætt við sig flugferðum en flugfélagið Air Baltic tilkynnti nýverið að það myndi nú fljúga allt árið til Keflavíkur. Áður hefur félagið einungis flogið yfir sumarið. Air Baltic býður upp á flugferðir til Riga, höfuðborgar Lettlands. Guðni segir það jákvæðar fréttir þótt þær breytingar séu ekki stórvægilegar.

„Fleiri flugfélög þjónusta evrópska áfangastaði og þau hafa sum hver aukið flugið. Það hefur þó ekki verið það mikið að við höfum séð ástæðu til að breyta farþegaspá Isavia sem við birtum uppfærða í byrjun júní,“ segir Guðni í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert