Undirbúningur Druslugöngunnar í fullum gangi

Skilti fyrir gönguna voru útbúin á Loft hosteli í miðbæ …
Skilti fyrir gönguna voru útbúin á Loft hosteli í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. mbl.is/Hari

Druslugangan fer fram á morgun og stóðu því druslur í ströngu við að undirbúa gönguna á Loft hosteli í gærkvöldi.

Gangan hefst á morgun við Hallgrímskirkju klukkan 14.00 og endar á Austurvelli, þar sem ávörp og tónlistaratriði verða flutt almenningi.

Á Loft hosteli voru skilti útbúin og varningur til sölu, auk þess sem Sigrún Bragadóttir hannyrðapönkari var með vinnustofu í hannyrðapönki.

„Hannyrðapönk er lausleg þýðing á enska orðinu „craftivism“. Hannyrðapönk er ekki nýtt af nálinni.

„Hannyrðapönk er það þegar handverk er notað sem hreyfiafl, aktívismi, til að knýja fram breytingar í heiminum, til að stuðla að betri heimi,“ sagði Sigrún. Hún segir að skiltagerð sé ákveðið hannyrðapönk þar sem verið er að vekja fólk til umhugsunar.

Gangan fer nú fram í Reykjavík níunda árið í röð, en hún fór fyrst fram hér á landi hinn 23. júlí árið 2011. Fyrsta druslugangan var farin örstuttu áður, í Toronto í Kanada. Aðdragandi mótmælanna voru ummæli lögreglumanns nokkurs þar í landi sem lagði til að konur forðuðust að klæða sig eins og „druslur“.

Druslugangan hefur það að markmiði að sýna þolendum kynferðisofbeldis samstöðu auk þess að boða lok nauðgunarmenningar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka