Vettvangsrannsókn lauk í gær

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum …
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rannsókn flugsviðs rannsóknarnefndar flugslysa (RNSA) á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum lauk í gær, en þar hlekktist eins hreyfils flugvél á í lendingu á sjötta tímanum í gær. 

„Málið er bara í rannsókn,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði rannsóknarnefndar flugslysa, sem kveðst takmarkaðar upplýsingar geta gefið um slysið. „Ég get sagt að flugvélin hafnaði utan brautar, á bakinu, s.s. á hvolfi,“ segir hann, en vélin snerist í lendingunni að því er fram kom í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.

Vettvangur var rannsakaður í gærkvöldi og afhenti rannsóknarnefndin eiganda flugvélina. „Það var ekki talið tilefni til þess að halda henni,“ segir Ragnar. 

Spurður hvenær von sé á niðurstöðu rannsóknarinnar segir hann að ómögulegt sé að segja til um það. Hann nefnir að talsverðar annir hafi verið hjá rannsóknarnefndinni í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert