Villikettir um allt land í leit að framtíðarheimili

Blíða er 10-11 vikna og ein af kettlingunum sem fundust …
Blíða er 10-11 vikna og ein af kettlingunum sem fundust í Hafnarfirði nýlega. Ljúf, góð og sallaróleg þegar inn fyrir peysuna var komið. mbl.is/Arnþór

Fósturheimili á vegum Villikatta eru um það bil fjörutíu og 150 kisur sem hafa verið á vergangi bíða nú eftir framtíðarheimili. Nú eru sérstaklega margir villikettlingar í umsjá Villikatta að sögn Arndísar Bjargar Sigurgeirsdóttur, formanns og eins stofnenda Villikatta. Hún hefur sjálf boðið heimili sitt fram sem fósturheimili sex villikatta, þar af fjögurra kettlinga.

„Þessir kettlingar eru úr Hafnarfirði og það var eldri kona sem lét vita af þeim. Hún hafði séð ketti á vergangi og hafði verið að gefa þeim í vetur en svo skyndilega sá hún þessa kettlinga, og lét vita,“ sagði Arndís. Kettlingarnir sem búa hjá Arndísi eru um 10 til 11 vikna gamlir en læðan Grása er 4 til 5 ára.

Bjargað úr brunanum

Grása lifði af bruna sem varð í Mosfellsbæ fyrir rúmu ári og tók Arndís hana að sér í framhaldi af því. Sambúð Grásu með kettlingunum er nokkuð erfið og er því Grása að flytja á annað fósturheimili á næstu dögum:

„Hún er algjör kelirófa við aðrar kisur en hún nennir ekki að sinna kettlingum. Svo þegar hún er farin þá verða þeir alveg lausir við hana,“ sagði Arndís um sambúðina.

Rót villikattavandans er mannfólkið, að sögn Arndísar Bjargar Sigurgeirsdóttur. Eigendur séu ekki nægilega duglegir að gelda kettina sína.

„Þegar fólk geldir kettina sína ekki og missir þá á einhvern hátt þá verða til svona litlir villingar. Og ef við náum þeim ekki inn þá heldur kettlingaframleiðslan áfram,“ segir hún og heldur áfram:

„Það þarf að stöðva þetta en á mannúðlegan hátt. Hingað til hefur aðferðin verið sú sama og í gamla daga. Þá voru kettlingar og kettir skotnir á færi og því miður er það þannig enn þá á sumum stöðum á landsbyggðinni,“ sagði Arndís.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert